Jónas og Valdimar á Borgarfirði: Af hverju þarf alltaf að vera svona leiðinlegt lag fyrst?
Tónlistarmennirnir Jónas Sigurðsson og Valdimar Guðmundsson héldu tónleika í Fjarðaborg á Borgarfirði síðastliðið föstudagskvöld þar sem þeir buðu gestum til sín á sviðið. Með tónleikunum vildu þeir fylgja eftir tónleikaröð Jónasar þar sem hann hélt 18 tónleika á 21 degi síðasta sumar.
„Við byrjum á rólegu lagi. Ég fékk spurningu í fyrra af hverju það þyrfti alltaf að vera svona leiðinlegt lag fyrst,“ sagði Jónas við upphaf tónleikanna.
Hann var einn á sviðinu í byrjun en smá saman fjölgaði í hópnum. Meðal gesta voru Hjalti Jón Sverrisson, Esther Jökulsdóttir og borgfirski englakórinn. „Ég tala um svona einfaldari hluti heldur en Jónas,“ sagði Valdimar við kynningu eins laga sinna. Þegar rýnt var í textana reyndist svo alls ekki vera.
Á sviðinu stóð að vanda rauður sófi þar sem yngsta kynslóðin hélt sér sæti. „Ég var búinn að gleyma að ég ætlaði að spila á bassa í þessu lagi,“ sagði Jónas eitt sinn, greip hljóðfærið og hlammaði sér niður í sófann.
Krakkarnir hröktust undan honum. „Nei, þið þurfið ekki að fara öll,“ kallaði Jónas á eftir þeim. Næst greip hann hljóðfærið og olnbogaði sig í miðjan sófann. Þar sátu allir sáttur.
Jónas er nú á hringferð um landið með áhöfninni á Húna II. Fjöldi gesta mætti á Borgarfjörð í gærkvöldi þrátt fyrir rigningu. Gengið er nú á leið til Reyðarfjarðar þar sem leikið verður í kvöld í beinni sjónvarpsútsendingu klukkan 19:45.