Allt klárt fyrir Pólar hátíðina á Stöðvarfirði: Markmiðið að sameina snillinga
Nóg verður um að vera á Stöðvarfirði um helgina því á morgun hefst þar hæfileikahátíðin Pólar. Um leið verður sjálfbæra bæjarhátíðin Maður er manns gaman haldin.„Aðalpunkturinn við Pólar er að allir geti deilt hæfileikum. Við göngum mikið út frá slíkum hugmyndum og hagnýtum listum. Okkur langaði til að sameina snillinga og það eru svo margir snillingar á Stöðvarfirði þannig það passar mjög vel saman,“ segir Gígja Sara Björnsdóttir, einn aðstandenda hátíðarinnar.
Hún segir stemminguna fyrir helgina góða og þáttakendur jafnt sem skipuleggjendur eiga bágt með að bíða eftir að hún bíði. „Það gengur allt mjög vel. Við hlökkum mikið til að fá fólk.“
Meðal þess sem boðið verður upp á er bryggjuball á föstudagskvöldi, tónleikar, listasýningar, dansnámskeið, ratleikur og opin dagskrá með það að markmiði að bjóða til matarveislu á laugardagskvöld.
„Bjarki úr Góðgresi og nokkrir aðrir eru að leggja drög að matseðli fyrir laugardaginn. Það verður grillað úr nýveiddum fisk og nýtíndum jurtu.“
Á dagskrá Maður er manns gaman er að auki sjósund í sparifötum, rabbabaraveisla, fótboltamót, dorgveiðikeppni, söguganga og flóamarkaður.
Nánar er hægt að kynnast Pólar á Facebook og fylgjast með dagskránni.
Verkefnið er styrkt af Menningarráði Austurlands en skipuleggjendur hafa einnig nýtt hópfjármögnunarvefinn Karolina Fund. Kynning verður á sjóðnum á sunnudag.