Forsetinn á Fáskrúðsfirði: Hann er of oft í jakkafötum! – MYNDIR
Dorrit Moussaieff segir eiginmann sinn, Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, of oft klæðast jakkafötum. Hann segist á móti vera fremur nýtin á jakkafötin. Hann oft að heiman og segir mikla eftirspurn víða úr heiminum eftir að heyra frá forseta Íslands.Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ólafs Ragnars í heimsókn í Skólamiðstöð Fáskrúðsfjarðar á þriðjudag en honum lauk á fyrirspurnartíma.
Klæðnaður forsetans var meðal þess sem spurt var út í, til dæmis hvers vegna hann væri svona oft í jakkafötum. Hann sagði að það vendist að ganga í jakkafötum en Dorrit skaut því að henni þætti Ólafur vera of oft í jakkafötum.
Umræðuna um jakkafötin nýtti Ólafur Ragnar til að benda á að við ættum það til að henda hlutunum og kaupa nýja í stað þess að nota það sem við hefðum.
„Ég er mjög nýtinn á jakkaföt. Ég er til dæmis búinn eiga þessi sem ég er í núna í tíu ár og Dorrit hefur átt fötin sem hún klæðist í dag í 30 ár. Við erum alin upp í þjóðfélagi þar sem menn henda og kaupa nýtt en við eigum að vera nýtin á það sem við eigum. Við Dorrit geymum gömlu fötin okkar þótt við kaupum okkur ný.“
Ólafur Ragnar sagðist eyða miklum tíma í ferðalög sem Dorrit samsinnti með orðum um að þau ferðuðust „of oft“. Hann sagði þau eiga lítinn tíma fyrir sig sjálf. „Það getur verið erfitt að ferðast en það er líka gefandi að heimsækja skóla eins og ykkar,“ sagði Ólafur.
„Okkur berast margar óskir og fyrirspurnir um að segja frá árangri Íslands við að byggja upp samfélag. Ef maður nei þá ylli maður einhverjum vonbrigðum. Við Dorrit höfum átt sex daga frí á síðastliðnum tveimur árum.“
Aldrei keyrt forsetabílinn
Forsetabíllinn var líka til umræðu en Ólafur staðfesti að hann hefði aldrei prófað að keyra hann sjálfur. Hann sagði að fyrsti bíllinn hans hefði verið flatbotna Skoda sem hefði verið gott í snjónum því þá hefði hann runnið eins og sleði.“
Ólafur sagði einnig frá fyrstu skrefum sínum í stjórnmálum sem voru á framboðsfundi í Vestur-Ísafjarðarsýslu þegar hann var níu ára gamall. Hann var þá fenginn til að hlaupa með miða utan úr sal upp á svið til frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins svo hann fengi upplýsingar en viðkomandi frambjóðandi var í miklum vandræðum á þessum fundi því hann þekkti ekki nógu vel til á svæðinu.
Ólafur Ragnar hrósaði skólastarfinu í Fjarðabyggð í heild og sagði gaman að sjá ólíka skóla. Hann hefði varla trúað því hversu ólíkir skólar gætu þrifist innan sama sveitarfélags og bætti við að það væru nemendurnir sem sköpuðu andrúmsloftið á hverjum stað.
„Það er fróðlegt að heimsækja staði eins og ykkar og sjá hvað þið eruð að gera í skólanum og atvinnulífinu. Ég vil líka leyfa ykkur að hitta okkur. Það er eitt það skemmtilegasta við þessar ferðir og ég fræðist alltaf mikið í þeim.“
Á Fáskrúðsfirði heimsótti Ólafur Ragnar einnig Loðnuvinnsluna, franska spítalann og kaupfélagshúsið Tanga þar sem Gallerí Kolfreyja er til húsa.