Ólafur Ragnar á Stöðvarfirði: Dorrit bannar mér að borða pönnukökur - MYNDIR
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var einkar ánægður með gestrisni Stöðfirðinga þegar hann heimsótti þá í opinberri heimsókn til Fjarðabyggðar á þriðjudag. Hann sagði enn sama kraftinn einkenna heimamenn og þegar hann kom þangað fyrst.Ólafur Ragnar heimsótti grunnskólann, Sköpunarstöðuna og ávarpaði heimamenn í kaffiboði í safnaðarheimilinu. Börnin í grunnskólanum höfðu mikinn áhuga á að segja Ólafi og frú Dorrit Moussaieff brandara og sögur úr sínu lífi.
Einn sagðist hafa frétt af Ólafi Ragnari úti að hlaupa. Ólafur sagði að hann byrjaði hvern dag á kraftgöngu og í eina slíka hefði hann farið á Norðfirði á mánudag.
Í safnaðarheimilinu rifjaði Ólafur Ragnar upp að þegar hann hefði fyrst heimsótt Stöðvarfjörð hefðu þar aðeins verið malarvegir. Þá var staðurinn sjálfstætt sveitarfélag en tilheyrir í dag Fjarðabyggð.
„Það er gaman að sjá hvernig byggðirnar tengjast saman en halda samt séreinkennum sínum,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu til Stöðfirðinga.
Hann virtist ánægður með heimsókn sína í Sköpunarmiðstöðina í gamla frystihúsinu. „Stöðvarfjörður hefur alltaf haft kraftmikið fólk. Sköpunarmiðstöðin sannar að ef menn hafa krafinn og sýnina í sér skiptir ekki máli hvar nýsköpunin á sér stað.“
Kirkjuklukku staðarins var hringt forsetahjónunum til heiðurs en nýverið var vígður klukkuturn við Stöðvarfjarðarkirkju. Hann er samt enn klukknalaus en ekki hafa verið til fjármunir til kaupa á klukkum.
Enn er óljóst hvað verður um hina öldnu klukku en Ólafur Ragnar sagðist álíta það áhrifaríkara að láta söfnuðinn hringja klukkunni, eins og gert var á þriðjudaginn, fremur en fara með hana upp í turninn. „Það værir hana nær fólkinu.“
Hann stakk einnig upp á að þeim sið yrði komið á að hvert og eitt fermingarbarn hringdi klukkunni.
Stöðfirðingar buðu upp á kleinur og ástarpunga sem virtust falla frú Dorrit vel í geð. „Dorrit er alltaf að halda að mér heilsufæði á Bessastöðum. Hún bannar mér að borða pönnukökur og þess háttar.
Hér er hún búin að klára úr einni skál af ástarpungum og hefur flutt sig á annað borð þar sem hún situr ein að skálinni!“