Jónas Sig: Töfrarnir verða til þegar maður fer og spilar fyrir fólkið
Ný hljómplata tríósins Dranga, sem skipað er þeim Jónasi Sigurðssyni, Mugison og Ómari Guðjónssyni er að hluta til tekin upp á Borgarfirði eystri. Árið hefur verið annasamt í tengslum við tónleikaferðir hérlendis, sérstaklega hjá Jónasi. Hann segir þá alla þrjá álíta það mikilvægt að halda tónleika til að tengjast hlustendum.„Þetta er spurning um hvað maður vill vera. Við eigum það allir sameiginlegt í Dröngum að vilja fara og hitta fólk, leyfa því að heyra tónlistina.
Það er allt annað að gefa út plötu heldur en að fara og spila fyrir fólkið. Það eru galdrar sem gerast þá," sagði Jónas þegar Austurfrétt ræddi við hann eftir tónleikana í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld.
Hugmyndin að Dröngum kviknaði með hringferð Jónasar og Ómars í byrjun árs en þeir spiluðu meðal annars með Mugison á Ísafirði. Hluti plötunnar var tekinn upp í Súðavík, á heimili Mugison, en annar hluti á Borgarfirði.
„Okkur langaði að taka vinnutarnir og tókum fyrst viku heima hjá Ödda (Örn Elís Guðmundsson/Mugison) á Súðavík. Það er æðislegur staður og mikil kyrrð.
Ég hef verið mikið á Borgarfirði og finnst æðislegt að vera þar. Öddi spilaði þar á Bræðslunni í fyrra og Ómar með mér í tónleikamaraþoninu. Ég stakk því upp á að við eyddum viku á Borgarfirði. Þar er mikil kyrrð og orka og hægt að einbeita sér að verkinu."
Draumavika á Borgarfirði
Jónas segir vikuna á Borgarfirði hafa verið framar vonum. „Það er draumavika sem allir eru enn að tala um. Við byrjuðum daginn klukkan níu í Álfacafé og vorum framyfir hádegi að semja texta. Síðan fórum við í spa og sjósund og lögðum okkur. Á kvöldin vorum við í Fjarðaborg. Við fengum þar aðstöðu uppi á lofti og tókum þar upp."
Þremenningarnir voru einnig um borð í Húna sem sigldi hringinn í kringum landið í júlí og hélt tónleika til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.
„Þetta er búið að vera mjög annasamt ár," segir Jónas og vefst tunga um tönn þegar hann er spurður hvort hann sé aldrei heima hjá sér. „Þarna hittirðu á veikan blett. Við fjöllum einmitt um það á plötunni. Stundum þyrfti ég að vera meira heima."
Meiri þörf fyrir góðu stundirnar á veturna?
Í gegnum orð hans skín hins vegar ánægjan af því að ferðast um landið og halda tónleikana. „Það er svo rosalega gaman að fara og spila víða. Þeir sem koma á tónleika koma aftur og maður finnur ásóknina aukast."
Jónas segist finna nokkurn mun á því að vera á tónleikaferð að sumri eða vetri. „Það er meiri partýstemming á sumrin. Það er til dæmis mikill munur á að spila í Fjarðaborg á sumri eða vetri. Það er gaman í bæði skiptin en á sumrin er bjart og þá eru menn að kíkja inn en á veturna koma allir inn úr myrkrinu. Stundum finnst mér eins og fólk hafi meiri fyrir músik og góðar stundir á veturna."
Jónas segir félagana í Dröngum ánægða með nýju plötuna. „Okkur líður vel með verkefnið. Við ætlum að halda áfram að spila saman og njóta þess á meðan við elskum hvern annan og erum í góðum fíling."
Hugmyndin að Dröngum kviknaði með hringferð Jónasar og Ómars í byrjun árs en þeir spiluðu meðal annars með Mugison á Ísafirði. Hluti plötunnar var tekinn upp í Súðavík, á heimili Mugison, en annar hluti á Borgarfirði.
„Okkur langaði að taka vinnutarnir og tókum fyrst viku heima hjá Ödda (Örn Elís Guðmundsson/Mugison) á Súðavík. Það er æðislegur staður og mikil kyrrð.
Ég hef verið mikið á Borgarfirði og finnst æðislegt að vera þar. Öddi spilaði þar á Bræðslunni í fyrra og Ómar með mér í tónleikamaraþoninu. Ég stakk því upp á að við eyddum viku á Borgarfirði. Þar er mikil kyrrð og orka og hægt að einbeita sér að verkinu."
Draumavika á Borgarfirði
Jónas segir vikuna á Borgarfirði hafa verið framar vonum. „Það er draumavika sem allir eru enn að tala um. Við byrjuðum daginn klukkan níu í Álfacafé og vorum framyfir hádegi að semja texta. Síðan fórum við í spa og sjósund og lögðum okkur. Á kvöldin vorum við í Fjarðaborg. Við fengum þar aðstöðu uppi á lofti og tókum þar upp."
Þremenningarnir voru einnig um borð í Húna sem sigldi hringinn í kringum landið í júlí og hélt tónleika til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.
„Þetta er búið að vera mjög annasamt ár," segir Jónas og vefst tunga um tönn þegar hann er spurður hvort hann sé aldrei heima hjá sér. „Þarna hittirðu á veikan blett. Við fjöllum einmitt um það á plötunni. Stundum þyrfti ég að vera meira heima."
Meiri þörf fyrir góðu stundirnar á veturna?
Í gegnum orð hans skín hins vegar ánægjan af því að ferðast um landið og halda tónleikana. „Það er svo rosalega gaman að fara og spila víða. Þeir sem koma á tónleika koma aftur og maður finnur ásóknina aukast."
Jónas segist finna nokkurn mun á því að vera á tónleikaferð að sumri eða vetri. „Það er meiri partýstemming á sumrin. Það er til dæmis mikill munur á að spila í Fjarðaborg á sumri eða vetri. Það er gaman í bæði skiptin en á sumrin er bjart og þá eru menn að kíkja inn en á veturna koma allir inn úr myrkrinu. Stundum finnst mér eins og fólk hafi meiri fyrir músik og góðar stundir á veturna."
Jónas segir félagana í Dröngum ánægða með nýju plötuna. „Okkur líður vel með verkefnið. Við ætlum að halda áfram að spila saman og njóta þess á meðan við elskum hvern annan og erum í góðum fíling."