Kennari við Brúarásskóla sýnir í einu virtasta ljósmyndagalleríi Bandaríkjanna

Agnieszka-SosnowskaÍ Panopticon-galleríinu í Boston í Bandaríkjunum var nýverið opnuð sýning á ljósmyndum Agnieszku Sosnowsku sem starfar sem kennari við Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði. Safnstjórinn segir myndir hennar endurspegla vel upplifun hennar á lífinu í sveitinni.

Agnieszka er fædd í Varsjá í Póllandi en lauk námi í ljósmyndun frá listaskólanum í Massachusetts og háskólanum í Boston. Hún hefur búið á Héraði síðan 2005 og er hluti af myndum hennar á sýningunni teknar á svæðinu.

„Sjálfsmyndaröð hennar endurspeglar súrrealískar minningar úr lífi hennar í sveitinni með vísan til barnæskunnar og uppvaxtarins,“ segir í sýningarskrá.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Jason Landry, eigandi og framkvæmdastjóri Panopticon, fyst hafa hitt Agnieszku á ljósmyndahátíð í París fyrir ári en hann hafði áður séð verk hennar frá námsárunum í Boston og hrifist af þeim.

„Ég kann virkilega að meta getu Agnieszku til að hugsa um umhverfi sitt og þá hluti sem hún kýs að hafa með þegar hún skapar sjálfsmynd. Verk hennar frá námsárunum á tíunda áratugunum mynda samhljóm með þeim verðum sem hún gerir nú á fullorðsárunum.

Ég afar íhaldssamur þegar kemur að ljósmyndum þannig ég varð afar undrandi að komast að því að hún notast enn við filmu og „large format“ myndavél.

Mér finnst dásamlegt að eiginmaður hennar hafi smíðað handa henni myrkraherbergi á heimili þeirra. Það er mikils virði að njóta slíks stuðnings frá sínum nákomnustu. Áleitin fegurð er það sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um verk hennar.“

Verk Agnieszku eru á aðalsýningu gallerísins í haust sem ber yfirskriftina „On First Contact“ (Við fyrstu sýn) sem vísar til vinnsluaðferðarinnar. Svokallað „contact sheet“ er það fyrsta sem ljósmyndarar búa til í myrkraherberginu þegar unnið er með 35 mm filmur.

Skjalið verður til þegar negatífri myndum er varpað á ljósmyndapappír þannig að ljósmyndarinn getur í fljótheitum skoðað hvaða myndir hann vill taka til stækkunar og frekari vinnslu.

„On First Contact er ekki sýning sem gengur út á vísindaskáldskap heldur að sýna myndir af filmu í mun smærra formi heldur en tíðkast í dag. Sýningin veitir gestum tækifærið til að skoða myndirnar í því hráa, óskorna og óframkallaða formi sem blasti við ljósmyndaranum þegar hann skóp myndirnar.“

Panopticon-galleríið var stofnað árið 1971 og er eitt af elstu listljósmyndagalleríum Bandaríkjanna. Sýningin stendur til 14. janúar.

Ein af þeim sjálfsmyndum Agnieszku sem eru á sýningunni, tekin í Norwell, Massachusetts árið 1993. Mynd: Úr einkasafni/Panopticon Gallery

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.