Á fætur í Fjarðabyggð; „Kvöldvökurnar njóta sívaxandi vinsælda“

Gönguvikan Á fætur í Fjarðabyggð hófst á laugardaginn og lýkur um næstu helgi. Í boði eru á fimmta tug viðburða, bæði gönguferðir og skemmtanir, en vikan er ekki síður skilgreind sem gleðivika.



Skipuleggjendur gönguvikunnar eru Ferðafélag fjarðamanna í samstarfi við Ferðaþjónustuna Mjóeyri og fyllir hún átta heila daga af fjölbreyttum viðburðum og frábærri útivist.

Áhersla er lögð á fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi; fjölskyldugöngur, sögugöngur og göngur fyrir alvöru fjallagarpa. Á kvöldin er brugðið á leik með kvöldvökum og sjóræningjapartíum auk þess sem Náttúruskólinn er starfræktur fyrir yngstu þátttakendurna.

Fjöllin fimm að þessu sinni eru; Hái-Járnsskari milli Norðfjarðar og Hellisfjarðar (619m), Sauðatindur í Eskifirði (1088m), Sómastaðartindur í Reyðarfirði (948m), Sauðabólstindur í Stöðvarfirði (859m) og Goðatindur milli Eskifjarðar og Norðfjarðar (912m).

Sem fyrr er hægt að hljóta nafnbótina „Fjallagarpur gönguvikunnar“, en það er gert með því að safna stimplum hjá fararstjórum fyrir öll fjöllin fimm. Fullstimpluðu skjali skal skilað til fararstjóra í lok síðustu göngu og er veitt viðurkenning fyrir afrekið.


Allir göngudagarnir enda á skemmtilegum kvöldvökum

„Gönguvikan er alltaf að stækka hjá okkur en á annað þúsund manns hafa verið að ganga síðustu ár,“ segir Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi á Mjóeyri.

Sævar segir að vissulega sé alltaf fjölgun í göngurnar en það séu kvöldvökurnar sem hafi verið að stækka hratt undanfarin ár. „Það er ákveðinn kjarni sem mætir alltaf í allar göngur en þegar við áttuðum okkur á því hve vinsælar kvöldvökurnar voru orðnar fórum við að að beina sjónum okkar að þeim í auknum mæli,“ segir Sævar, en kvöldvökur verða alla dagana og eru alltaf endapunktur á góðri fjölskyldugöngu.

Hér má sjá allar upplýsingar um glæsilega dagskrá Gönguvikunnar.

Á fætur í fjarðabyggð1

Á fætur í Fjarðabyggð3

Á fætur í Fjarðabyggð4

Ljósmyndir: Fjarðabyggð

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.