Skip to main content

Á snjallsíminn sér uppruna í þrælabúðum?

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. okt 2016 11:37Uppfært 06. okt 2016 11:37

Nemendur framhaldsskólanna fá þessa dagana fræðslu um hvernig ákvarðanir þeirra hafa áhrif á umhverfið og framtíð þeirra. Kaup á farsíma er gott dæmi því tilurð íhlutanna er ekki alltaf ljós.


„Við ræðum við þau umhverfismál almennt og hvernig þau geta haft áhrif á umræðuna. Þau erfa landið og verða fyrir öllum afleiðingunum,“ segir Pétur Halldórsson.

Hann er í tveggja vikna ferð um landið ásamt Lilju Steinunni Jónsdóttur en þau koma úr samtökunum Ungir umhverfissinnar. Þau þekkja ágætlega til eystra, Pétur hefur verið landvörður í Snæfellsskála síðustu tvö sumur og Lilja starfaði í upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum.

Þau sendu boð á alla framhaldsskóla landsins og heimsækja þá sem svöruðu. Í dag var röðin komin að Menntaskólanum á Egilsstöðum.

„Við viljum koma inn umhverfisvitund og gagnrýninni hugsun. Af hverju umhverfismál koma þeim við og hvernig hvert einasta val þeirra hefur áhrif,“ segir Lilja.

Hvaðan kemur snjallsíminn?

Þau hafa gjarnan notað snjallsímana sem dæmi. „Þau eru öll með þá á sér en hafa ekki endilega velt fyrir sér hvaðan hlutirnir koma enda eru framleiðendur misduglegir að sýna það. Þetta á bæði við um umhverfisþætti og félagslega. Málmar eru undirstaðan í þeim og í sumum námum eru stéttarfélög en aðrar eru bara þrælakistur.

Ég tala gjarnan við þau um snyrtivörur en það er hægt að velja þær lífrænar. Finnst þeim í lagi að vörur eins og tannkrem sem innihalda míkróplast séu ómerktar? Ef þau vilja vita það er það ekkert mál en þrýstingurinn verður að koma frá neytendum.

Þau erfa landið og við þurfum að finna lausnirnar þegar við sjáum vandann en ekki þegar hann er skeður. Í Bandaríkjunum eru býflugur í útrýmingarhættu út af áhrifum mannsins. Ef þær deyja út þá hverfur stór hluti matvælaframleiðslunnar,“ útskýrir hún.

Metnaðarfull vinna á Djúpavogi

Ferðina nota þau einnig til að hitta fulltrúa sveitarfélaga og kynna sér hvað þau eru að gera í umhverfismálum. Pétur og Steinunn komu við á Djúpavogi og hrifust af þeirri vinnu sem þar er unnin á grundvelli Cittaslow-hugmyndafræðinnar.

„Starfið þar er ótrúlega metnaðarfullt. Þar eru til dæmis undirbúnir göngustígar áður en ferðamönnum er hleypt inn á svæði í stað þess að fá fólkið strax inn á svæðið þannig það treðst niður og verður að drullusvaði,“ segir Pétur.

Pétur og Lilja segja umhverfisvitund framhaldsskólanemanna almennt ágæta og vilja í stjórnkerfunum til að hlusta á ungt fólk.

„Krakkarnir sem við hittum á Höfn töluðu mikið um samvinnu og það er rétt hjá þeim að saman höfum við sterkari rödd og erum fljótari að gera hlutina heldur en ef við erum hvert eitt og sér. Ungt fólk á Íslandi hefur sterka rödd ef það vill sem sést á því að við höfum hvergi komið að luktum dyrum,“ segir Lilja og Pétur bætir við: „Það er jákvætt að heyra að fólkið sem stjórnar vilji heyra hvað ungu fólki finnst.“