Abstrakt nálgun af hryðjuverkaógn í Evrópu
Dansleikhúsverkið FUBAR verður sýnt í Frystiklefanum í Sláturhúsinu á morgun, Degi íslenskrar tungu, klukkan 17:30, en verkið er abstrakt nálgun af persónulegri upplifun höfundar af hryðjuverkaógn í Evrópu.
Höfundur verksins og dansari er Sigga Soffía og Jónas Sen tónskáld frumsemur tónlistina, en tónlist og dans hafa fæðst saman í spunum á vinnuferlinu þar sem listamennirnir vinna báðir útfrá sama efninu og þannig myndast djúp tenging tónlistar og hreyfinga.
Í lýsingu á verkinu segir að FUBAR sé dansleikhúsverk unnið út frá tíma og hvernig klukkutími geti liðið eins og mínúta þegar einstaklingur upplifir eitthvað frábært og hvernig tíminn virðist stoppa þegar upplifunin er hræðileg. Einnig að dansarinn líkamni huglæga upplifun.
Verkið er dansleikhúsverk þar sem ekki einungis er dansað heldur er texti, söngur, vélmennadans, lifandi hljóðfæraleikur og búningar úr smiðju tískuhönnuðarins Hildi Yeoman áberandi.
Sigga Soffía er þekktust fyrir flugeldasýningar sínar
Sigga Soffía útskrifaðist af samtímadansbraut frá Listaháskóla Íslands árið 2009 en á lokaári sínu var hún í skiptinámi við sirkusskólann Ecole Superior des Arts de Cirque í Brussel.
Hún hefur vakið mikla athygli sem danshöfundur en verk hennar Svartar fjaðrir hlaut þrjár tilnefningar til Grímunnar.
Sigga Soffía er einna þekktust fyrir flugeldasýningar sínar á menningarnóttum Reykjavíkur en árið 2013 hlaut hún Menningarverðlaun DV fyrir Eldar sem var fyrsta flugeldaverkið hennar. Sólóverkið FUBAR er henni afar kært en verkið er abstrakt nálgun af persónulegri upplifun höfundar af hryðjuverkaógn í Evrópu.
Jónas hefur starfað mikið með Björk Guðmundsdóttur
Jónas Sen er með meistaragráðu í tónlistarfræðum (Performance Studies) frá tónlistardeild City University í London, einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og nam líka píanóleik hjá Monique Deschaussées í París.
Jónas semur raftónlist og hefur áður leikið hana á Extreme Chill hátíðinni og á Icelandic Airwaves. Hann hefur starfað mikið með Björk Guðmundsdóttur og í samstarfi við hana útsett og umritað fjölda laga hennar fyrir hljómborðshljóðfæri.
Hann hefur samið tónlist fyrir leikhús, unnið að sjónvarpsþáttaröðum sem hafa hlotið tilnefningu til Edduverðlauna og vinnur nú að sinni fyrstu bók.
Nánar má lesa um verkið hér.