![](/images/stories/news/folk/adda_rut_improv.jpg)
Adda Rut í yfirheyrslu: Getur rappað á íslensku táknmáli
Nú um helgina stendur spunaleikhópurinn Improv Ísland fyrir námskeiði á Egilsstöðum í samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs. Á námskeiðum hópsins kynnast þátttakendur grunninum í langspunaforminu Haraldinum, sem er ein þeirra aðferða sem hópurinn vinnur eftir.
Aðferðin er þjálfun í skapandi hugsun og eykur um leið hæfni í húmor og því að sleppa sér áhyggjulaust í gleði og gríni.
Alls eru 15 Austfirðingar skráðir til þátttöku og ættu í lok námskeiðs að ná að búa til um 20 mínútna gamansýningu á staðnum, út frá aðeins einu orði.
Kennari á námskeiðinu er Ástbjörg Rut Jónsdóttir, kölluð Adda Rut. Hún lauk BA-námi í leiklist, fræðum og framkvæmd vorið 2009 og fór í skiptinám til Glasgow í Royal Scottish Academy of Music and Drama (í Contemporary Performance Practise) í hálft ár. Hún er einnig með BA-gráðu í táknmálsfræði og táknmálstúlkun.
Hún leyfði Austurfrétt náðarsamlegast að spyrja sig spjörunum úr.
Fullt nafn: Ástbjörg Rut Jónsdóttir
Aldur: 37 ára
Starf: Sviðslistakona og táknmálstúlkur
Maki: Engin/n
Börn: Ronja, 12 ára
Undarlegasti matur sem þú hefur smakkað: Það var örugglega eitthvað sull sem ég eldaði sjálf eftir þemanu „Allt sem er til í ísskápnum“.
Fallegasta land eða staður sem þú hefur heimsótt: Króatía og Snæfellsnes
Helsta fyrirmynd í leiklistinni: Úfff... þegar stórt er spurt! Halldóra Geirharðs, Edda Björgvins, Bergur Þór Ingólfsson, Ragnheiður Skúladóttir og Jón Páll Eyjólfsson svo einhver séu nefnd. Jú og að sjálfsögðu næstum tvífari minn Tina Fey og meistari Amy Poehler.
Helsta fyrirmynd í lífinu: Afi Jói heitinn.
Uppáhalds tónlist: Það fer dálítið eftir í hvaða skapi ég er. Mjög erfitt að pikka eitthvað út án þess að fylla margar blaðsíður. En til að nefna eitthvað: Belle and Sebastian, Damien Rice, Cohen, Cave, Bowie, Sufjan Stevens, Ásgeir Trausti, Moses Hightower, Sigurrós, Amiina, Valdimar, Vök. Ég gæti haldið endalaust áfram.
Hvern vilt þú sjá sem næsta forseta Íslands og af hverju: Ég bara veit það ekki. Það verður þó að vera manneskja sem er réttsýn, heiðarleg og sönn, kærleiksrík, femínisti og sem sér og skilur auðinn í fjölmenningarsamfélagi.
Hvað er í töskunni þinni: Peningaveski (með engum peningum, bara kortum með yfirdráttarheimild), varalitur, penni, lyklar, varasalvi, sími, næstum tómt spjald af panodil töflum og óhreinir sokkar af dóttur minni sem hún setti í veskið mitt í gær.
Mesta undur veraldar: Móðir jörð kannski bara.
Helsti kostur: Ég er yfirmáta jákvæð og bjartsýn og stressast því sjaldan. Er líka dugleg, með mikla sjálfsbjargarviðleitni og sterka réttlætiskennd.
Helsti ókostur: Ég er langorð (sbr. svörin hér), hef mjög lélegt tímaskyn og tek mér gjarnan of margt fyrir hendur í einu. Þó ég sé „multitasker“, þá er ég víst ekki gædd ofurkröftum.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu: Pabbi minn sem dó þegar ég var mjög lítil. Þó hann hafi ekki verið áberandi í mannkynssögunni, þá er hann mikilvægur fyrir mína sögu.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum: Mjólk, sulta og smjör.
Býrðu yfir yfir einhverjum óvæntum hæfileikum: Ég get rappað á íslensku táknmáli.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og afhverju: Laugardagur, af þvi þá er tími fyrir svo margt skemmtilegt sem maður gerir ekki dags daglega.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta: Heiðarleika, réttsýni og náungakærleik.
Syngur þú í sturtu: Það kemur fyrir, en þá oftast á táknmáli.
Hvað er Improv: Improv er lífið og lífið er improv. Það er bara þannig!
Við hverju mega þátttakendur á námskeiðinu búast um helgina: Að vera í 10 tíma hláturskasti og koma sjálfum sér á óvart.