ADHD í Blúskjallaranum í Neskaupstað

adhd.jpg
Hljómsveitin ADHD verður með tónleika í Blúskjallaranum í Neskaupstað komandi föstudagskvöld. Sveitin spilar einskonar bræðing allskyns tónlistarstefna þótt oftast sé hún kennd við jazz.

Hljómsveitin ADHD var stofnuð í febrúar 2008, upphaflega til að taka þátt í blúshátíðinni á Höfn í Hornafirði. Samstarfið gekk vonum framar og árið 2009 kom út samnefnd plata, sem fékk frábæra dóma, m.a. 4 ½ stjörnu hjá Vernharði Linnett í Morgunblaðinu og var tilnefnd í flokknum besta umslag og var valin jazzplata ársins á íslensku tónlistarverðlaununum 2010.

Árið 2011 kom svo út önnur plata sveitarinnar, „adhd 2“. Platan fékk fínar viðtökur og frábæra dóma, m.a. 4 stjörnur í Fréttablaðinu, 4 stjörnur í Fréttatímanum og 4 1/2 stjörnur í Morgunblaðinu. Var platan einnig tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna í nokkrum flokkum, m.a. í flokknum „Besta Jazzplata“ og fyrir lag ársins í flokknum „Jazz og blús“. Einnig voru ADHD liðar tilnefndir í flokknum „Tónlistarflytjandi ársins“.

Í ágúst héldu ADHD liðar í Logaland til að taka upp sína 3. plötu. Þeir gerðu þó gott betur en það; plöturnar urðu tvær og bera þær heitin „adhd 3“ og „adhd 4“ og eru báðar nýkomnar út. Tónlistin á plötunum svipar til þess sem ADHD liðar hafa áður gert en þó má heyra ný áhrif víða og plöturnar báðar ferðast bæði fram og til baka í dýnamík og lagasmíðum.

Tónleikarnir í Blúskjallaranum eru hluti tónleikaferðalags til að kynna þessa veglegu útgáfu. Hljómsveitin þykir afspyrnu góð á sviði og ná þeir félagar upp stemmningu sem sjaldnast sést á jazztónleikum. Óhætt er að fullyrða að enginn austfirskur jazzgeggjari megi missa af þessum viðburði en að því sögðu má bæta við að annáluð smekkmenni hafa fullyrt opinberlega að þetta sé líka jazz fyrir þá sem ekki „fíla“ jazz.   

Tónleikarnir hefjast klukkan 22.

Mynd: ADHD liðar á göngutúr um Ísland. Frá vinstri: Óskar Guðjónsson, saxófónar; Ómar Guðjónsson, gítarar, bassar; Davíð Þór Jónsson, Hammond, hljóðgervlar, bassi og Magnús Tryggvason Eliassen, trommur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.