Æskudraumur rættist: Seyðfirðingur í sigurliði Popppunkts
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. ágú 2016 16:09 • Uppfært 17. ágú 2016 13:39
Hljómsveitin FM Belfast með Seyðfirðinginn Ívar Pétur Kjartansson innanborðs bar sigur úr bítum í úrslitaþætti Popppunkts á föstudaginn var.
FM Belfast vann í þættinum öruggan sigur á hljómsveitinni Grísalappalísu og hafði forystu allan þáttinn. Þeir náðu fjögurra stiga forystu í vísbendingaspurningum í byrjun þáttar og héldu henni nokkuð örugglega allt til enda, en lokastaðan var 35 – 32 fyrir FM Belfast.
Ívar Pétur segist hafa haft mjög gaman af því að taka þátt í sjónvarpsþættinum og er stoltur af árangrinum. „Þetta var alveg æskudraumur, að taka þátt í Popppunkti, og bara bónus að komast svona langt,“ segir hann.
Í liði FM Belfast voru auk Ívars þeir Örvar Þóreyjarson Smárason og Björn Kristjánsson, betur þekktur sem Borko. Ívar segir þá félagana hafa tekið keppnina nokkuð alvarlega. „Við tókum þetta alvarlega án þess að láta kappið bera fegurðina ofurliði. Örvar fór meira að segja og eyddi heilum degi uppá bókhlöðu við að glósa og sendi á okkur punkta. Svo var hverjum og einum úthlutað tímabilum og stefnum til að sérhæfa sig í,“ segir Ívar að lokum léttur.
Þess má til gamans geta að daginn eftir sýningu þáttarins skelltu meðlimir FM Belfast sér austur og héldu vel sótta tónleika í Havarí á Karlstöðum í Berufirði.