Ætlaði að verða sauðfjárbóndi: Jóhanna Seljan í yfirheyrslu

Nú er þorrablótsvertíðin gengin í garð og víða er sá háttur hafður á að samdar eru vísur um þá einstaklinga sem að blótinu standa ár hvert, en Jóhanna Seljan samdi allar 20 vísurnar á Reyðarfirði og flutti þær á blótinu ásamt systur sinni Hjördísi Seljan.



Jóhanna er ekki ókunn kveðskap og fyrir utan að semja mikið sjálf er hún þriðja kynslóðin sem semur nefndarvísur um Reyðfirðinga, því bæði hafa faðir hennar, Þóroddur Helgason og faðir hans, Helgi Seljan samið vísur fyrir ófá blótin á Reyðarfirði.

Fullt nafn: Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir.

Aldur: 38.

Starf: Deildarstjóri í leikskólanum Lyngholti og skemmtikraftur.

Maki: Óskar Björnsson.

Börn: Álfheiður Ída Kjartansdóttir, Þóroddur Björn Óskarsson og Björg Inga Óskarsdóttir.

Hugbúnaður? Excel.

Fyrsta æskuminningin þín? Ég og Halldór frændi að sníkja smákökur úr bauk hjá langömmusystur minni á Helluvaði í Mývatnssveit.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Lengi vel ætlaði ég að verða sauðfjárbóndi enda tek ég mig einstaklega vel út á hvítbotna gúmmískóm og í bláum vinnusamfestingi.

Besta bók sem þú hefur lesið? Þjóðsögur Jóns Árnasonar, sérstaklega draugasögurnar. Las öll bindin á unga aldri og svaf með ljósin kveikt fram að fermingu.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er frekar skipulögð og kem þarafleiðandi miklu í verk.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er hvatvís og stundum óþarflega tilfinningasöm.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Þau tróna tvö á toppnum, Ætti ég hörpu og Ökuljóð.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? St.Dalfour hindberjasulta, 26 % brauðostur og mjólk í lítravís.

Hvað er í töskunni þinni? Snyrtivörur, kortaveski, fjórir varasalvar, tvær túbur af handáburði, fingravettlingar, minnislykill, Ipod, hálsmolar, penni og þrír „to do“ listar.

Uppáhaldsdagur vikunnar og af hverju? Föstudagar eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Það fylgir þeim alltaf einhver spennufiðringur. Þá kemur líka sushi í Krónuna.

Markmið ársins 2016? Klassísk megrunarmarkmið. Fara í ræktina, missa 20 kíló, hlaupa maraþon.

Syngur þú í sturtu? Já mjög mikið. Það er dásamlegur hljómburður á flísalögðu baðherberginu og ég nota tækifærið og syng klassískar aríur eða rokklög. Eitthvað sem heimilisfólkið vill láta hlífa sér við að öllu jöfnu.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Ég kann virkilega vel að meta þegar fólk hefur húmor fyrir sjálfu sér. Hreinskilni og umburðarlyndi finnast mér líka góðir eiginleikar.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að strauja. Ég hef aldrei komist upp á lag með að gera það almennilega og ég reyni alltaf að koma mér hjá því. Legg mikinn metnað í að hengja blautar flíkur upp þannig að ekki þurfi að strauja þær.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Það væri hrikalega fínt að geta sest niður með Ellu Fitzgerald. Ég myndi ábyggilega reyna að fá hana til að kenna mér að „skatta“.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Foreldrar mínir, afar og ömmur. Allt saman afbragðsfólk sem ég lít upp til.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ég myndi vilja tryggja öryggi allra barna í heiminum, að ekkert þeirra þyrfti að líða skort eða upplifa þjáningar af nokkru tagi.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? 1. Borða sushi hjá Jiro í Tokyo. 2. Leika á móti Idris Elba og Benedict Cumberbatch í breskri spennuþáttaseríu. 3. Fara í siglingu umhverfis heiminn.

Duldir hæfileikar? Ég er með einstaklega liðug liðamót og get t.d. beygt og sveigt fingur í allar mögulegar áttir.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Á döfinni er kórpartý, söngkennsla og huggulegheit með vinum og fjölskyldu. Og megrun. Og ræktin. Ef ég nenni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.