Afhjúpa minnisvarða um Hans Jónatan: Þrællinn sem stal sjálfum sér
Minnisvarði um Hans Jónatan, hin dökka þræl sem flúði til Djúpavogs frá Kaupmannahöfn, og konu hans Katrínu Antoníusdóttur verður afhjúpaður í Hálskirkjugarði á morgun en þau hvíla þar.
Steinninn verður afhjúpaður klukkan tvö á morgun en dagskrá verður í Löngubúð á Djúpavogi tveimur tímum síðar. Þar verður sýnt brot úr væntanleg heimildamynd um Hans Jónatan og Gísli Pálsson, mannfræðingur sem gaf út bók um Hans Jónatan fyrir tveimur árum talar.
Hans Jónatan er talinn fæddur á Jómfrúareyjum en fluttist sem barn með móður sinni til Danmerkur en hún mun hafa verið ambátt í eigu danskra plantekrubænda.
Eftir því sem árin liðu taldi Hans Jónatan sig hafa unnið fyrir frelsi sínu. Því var eigandi hans ekki sammála og reyndi að fá eign sína viðurkennda með dómsmáli. Á meðan því stóð hvarf Hans Jónatan úr landi og varð þá til sú sögn að ef hann ætti sig sjálfur hlyti hann að hafa rænt sjálfum sér.
Hann skaut hins vegar upp kollinum á Djúpavogi. Þar var hann vel þokkaður, varð verslunarstjóri og giftist Katrínu. Þau eiga nú um 500 afkomendur víða um land. Eftir útkomu bókarinnar stofnuðu þeir Styrktarsjóð Hans Jónatans sem stendur að baki minnismerkinu.
Hvernig á að komast í Hálskirkjugarð?
Til að komast að Hálskirkjugarði er beygt af þjóðvegi upp á einbreiðan malarslóða neðan við fjárrétt sem er steinsnar ofan þjóðvegar. Þar sem ekki er hægt að sjá fyrir hve margir verða viðstaddir athöfnina, eru gestir vinsamlegast beðnir um að virða að pláss er takmarkað fyrir bíla við kirkjugarðinn sjálfan þar sem athöfnin fer fram. Því er mælst til þess að þeir sem eiga gott með gang að þeir leggi ökutækjum í hæfilegri fjarlægð frá garðinum t.d. við útskot við þjóðveg við gatnamótin, en þaðan eru um 500 m gangur í Hálskirkjugarð eftir vegslóðanum.