
„Áhorfendur gætu átt erfitt með að halda sér kyrrum í sætunum“
„Sýningin er í raun ferðalag aftur í tímann þar sem axlapúðar, fótanuddtæki og sódastreamtæki voru aðalmálið,“ segir Draumey Ósk Ómarsdóttir, formaður Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum, en félagið frumsýnir söngleikinn „Wake me up before you go go“ í Valaskjálf í kvöld.
Verkið fjallar um dreng sem ferðast aftur í tímann til að reyna að gera framtíð sína bærilegri, en auðvitað hefur það ófyrirséðar afleiðingar. Höfundur verksins er Hallgrímur Helgason, en leikstjórn er í höndum Árna Grétars Jóhannssonar.
LME fagnar 30 ára afmæli sínu í ár. „Það var mikill áhugi fyrir því að setja upp söngleik í ár þar sem dágáður tími er frá því LME gerði það síðast. Stjórnin og leikstjórinn skoðuðu verk saman og þegar að við römbuðum á þetta 80´s verk var ekki annað í stöðunni en að ferðast 30 ár aftur í tímann í tilefni afmælisins.
Eins og afreksmenn í íþróttum
Draumey Ósk segir æfingatímabilið vissulega hafa reynt á annað slagið. „Það væri lygi að segja að það hafið verið eins auðvelt og að drekka vatn að hrista einn söngleik fram úr erminni, en þetta er viðamikið verkefni og að mörgu þarf að huga, bæði innan sviðs og utan. Við þuftum bókstaflega að lenda hlaupandi eftir áramót og höfum eytt öllum okkar frítíma saman en það hefur ekki verið svo slæmt þar sem við erum öll svo skemmtileg og hópurinn þróað mikinn vinskap með sér. Krakkarnir í LME eiga mikið hrós skilið og hefur frammistaða þeirra ekki verið neitt síðri en hjá afreksmönnum í íþróttum.“
Fengu búninga um allt land
Hvernig ætli hafi gegnið að ná í réttu búningana? „Við byrjuðum auðvitað á því að fara á búningaloftir til hennar Dúrru og kom það okkur vel af stað. Við gerðum okkur svo fljótlega grein fyrir því að það þyrfti heilt flóð af fötum, en nánast allir leikaranir eru í að minnsta kosti í þremur dressum og nokkrir í fimm! Við auglýstum því um allar trissur og erum komin með myndarlegt safn úr skápum víðsvegar af landinu.“
80´s tískan skín gegn
Draumey Ósk segir áhorfendur megi búast við óborganlegri skemmtun. „Við erum að bjóða uppá allann pakkann; söng, dans, „ljósa-show“, glæsilega hljómsveit sem er búin að útfæra 17 helstu 80´s hittarana og auðvitað fær 80´s tískan að skína í gegn. Áhorfendur gætu því átt svoldið erfitt með að halda sér kyrrum í sætunum.“
Upplýsingar um sýningar og miðasölu má sjá hér.