Álfaborgarsjens á Borgarfirði og Hæglætishátíð í Berufirði

„Við höfum haldið úti hagyrðingamótum lengur en flestir, en okkur reiknast til að þetta gæti verið það 23 í röðinni,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, verti í Fjarðaborg, þar sem Álfaborgarsjens fer fram um helgina.


„Hagyrðingamótin eru alltaf mjög vinæl og vel sótt. Við sjáum kunnugleg nöfn í ár en einnig ný,“ segir Ásgrímur Ingi, en hagyrðingar kvöldsins verða þau Björn Ingólfsson, Andrés Björnsson, Friðrik Steingrímsson, Stefán Bogi Sveinsson og Sigþrúður Sigurðardóttir.

Sjónvarpsmaðurinn Helgi Seljan verður við stjórnvölinn. „Þetta er í annað skipti sem Helgi er í þessu hlutverki og ekki geta talist nokkrar líkur á að þetta fari úr böndunum, hann er harður í horn og vanur að standa upp í hárinu á fólki,“ segir Ásgrímur Ingi. Að móti loknu verður lifandi tónlist með Jóni Arngríms og félögum fram eftir nóttu.

Austfirskt súperstarband
Það er svo enginn annar en Pálmi Gunnarsson sem stendur tónleikavaktina í Fjarðaborg á laugardagskvöldið og leikur sínar helstu perlur ásamt góðum meðspilurum. „Hér verður austfirskt súperstarband, það er nú ekkert annað, en með Pálma á sviðinu verða þeir Hafþór Valur Guðjónsson, Hafþór Snjólfur Helgason og Jón Hilmar Kárason. Pálmi er frábær bassaleikari og söngvari en einnig mikill sagnamaður þannig að hann segir líklega sögur milli laga sem er nú aldrei leiðinlegt.“

Fyrir tónleika verður alþjóðlegt matarboð í Fjarðaborg þar sem Dagrún Sóla Óðinsdóttir verður gestakokkur.
Ásgrímur Ingi segist ekki hafa áhyggjur af veðurspánni þessa helgina. „Nei, það held ég ekki, en það kemur sér þó vel að það er alltaf hlýtt og notarlegt í Fjarðaborg.“

Hér má nánar lesa um Álfaborgarsjens.



Hæglætishátíð á Karlsstöðum
„Helgin verður undirlögð af allskonar gúmmulaði,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson á Karlsstöðum í Berufirði en Hæglætishátíðin í Havarí hefst í kvöld og stendur alla helgina.

Ösp Eldjárn opnar hátíðina með tónleikum í kvöld en stanslaus dagskrá verður alla helgina. „Það verður jógaganga, störukeppni, þagnarbindindi, rófukast, píanóbar, kvöldvökur, varðeldur, góður matur og allskonar fleira. Við endum svo á sunnudaginn með tónlistargjörningi með Jónasi Sig, Prins Póló, Borko og Benna Hemm Hemm,“ segir Svavar.

Dagskrá hátíðarinnar í heild sinni má sjá hér og allar nánari upplýsingar er að finna hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.