„Algerlega kominn tími á nýja meistara“

Lið Fljótsdalshéraðs mætir liði Reykjavíkur í úrslitaviðureign Útsvars í kvöld, en Fljótsdalshérað sló Fjarðabyggð út í æsispennandi undanúrslitaþætti fyrir hálfum mánuði.



Sem fyrr er lið Fljótsdalshérað skipað kempunum Björgu Björnsdóttur, Hrólfi Eyjólfsyni og Þorsteini Bergsyni.

Þrátt fyrir að aðeins nokkrir tímar séu í viðureigina var Hrólfur sallarólegur þegar Austurfrétt náði tali af honum í morgunsárið.

„Það er mjög skemmtilegt að vera komin svo langt, en mér skilst að þetta sé í fjórða skipti sem liðið er komin í úrslit, þrátt fyrir að hafa aldrei landað titlinum.

Stemmningin innan hópsins er mjög góð, við erum bjartsýn, en pressan er öll á Reykjavík, þau eru taplaus í vetur og ríkjandi meistarar,“ segir Hrólfur, en Reykjavík sigraði Fljótsdalshérað einmitt í fyrstu umferð vetrarins.

Aðspurður hvort spennustigið í salnum hafi ekki verið hátt þegar nágrannasveitarfélögin mættust fyrir tveimur vikum sagði Hrólfur;

„Þetta var gífurlega spennandi, eiginlega algerlega ótrúlegt. Ég er enn í hálfgerðu minnisleysi vegna of mikils flæðis adrenalíns. Ég man varla eftir því hvernig okkur tókst að vinna þetta – ég var nánast alveg búinn að gefast upp í auglýsingahléinu, en þegar ég áttaði mig á því að aðeins 13 stig skildu liðin að réttist úr mér. Þetta hefði átt að vera úrslitaviðureiginin, það hefði verið frábært.

Við komum algerlega tilbúin til leiks og stefnum á sigur, Reykjavík hefur unnið þetta síðastliðin tvö ár og algerlega kominn tími á nýja meistara lið. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum stuðninginn í vetur, hann hefur verið ómetanlegur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.