„Allir þurfa að vita hvað við eigum í íslenskri náttúru og enginn vill missa“

Ljósmyndasýningin „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ opnaði í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag í tilefni af 50 ára afmæli Náttúruverndarsamtaka Austurlands. Sýninguna prýða meðal annars myndir af svæði sem fór undir vatn við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Aðstandendur sýningarinnar segja nauðsynlegt að þekkja söguna og draga af henni lærdóm.

„Því miður er töluvert til í yfirskrift sýningarinnar. Svona hefur þetta oft verið og er enn. Við verðum hins vegar að breyta afstöðu okkar til nýtingar náttúruauðlinda þannig að yfirskriftin í framtíðinni verði sú að allir viti hvað við eigum í íslenskri náttúru og enginn vilji missa það. Þessi sýning á að opna augu okkar fyrir þeim fjársjóði sem íslensk náttúra er.“

Þetta sagði Guðrún Schmidt, nýr starfsmaður Landverndar á Austurlandi, í tilefni af opnun sýningarinnar á laugardag. Landvernd er einn aðstandenda sýningarinnar ásamt NAUST, Sláturhúsinu og Ólafi Sveinssyni sýningarstjóra.

„Ég hef verið mikið hér síðan 2006 þegar ég fór í fyrsta og eina skiptið um áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar eins og það var. Ég starfaði um árabil sem leiðsögumaður og að mínum dómi var þetta fallegasta landssvæði landsins. Af því er ótrúlega mikill missir,“ sagði Ólafur.

Fleiri myndir og sýningar í kjölfarið

Hann boðaði að hann hygðist á næstunni senda frá sér tvær kvikmyndir tengdar Kárahnjúkavirkjun. Fyrst mynd um svæðið sem ber titilinn „Veröld sem var“, hins vegar mynd um hvernig austfirskt samfélag breyttist með tilkomu virkjunarinnar. „Ég veit um óskaplega marga sem lentu mjög, mjög illa í því á þessum tíma og það mun koma fram í þessari mynd.“

Sýningin teygir sig svo að segja yfir allt Sláturhúsið. Á henni má sjá myndir af svæðum sem annað hvort koma til greina sem virkjunarsvæði eða myndir, svo sem af Kárahnjúkasvæðinu, eins og þau litu út fyrir virkjanir og hins vegar eftir þær.

Nokkrir austfirskir ljósmyndarar eiga verk á sýningunni, meðal annars Skarphéðinn Þórisson. Ólafur skýrði frá því við opnunina að í undirbúningi væri að koma upp útisýningu á náttúrulífsmyndum Skarphéðins á Egilsstöðum.

„Við verðum með 20 stórar myndir, 180x120 sm. sem standa munu úti næstu 5-10 ár. Skarphéðinn hefur meðal annars synt okkur náttúruna í vetrarbúningi. Þegar ég var að alast upp var bara sól og sumar á myndum af íslensku landslagi, síðar kom rigning og ský og nú eru komnar vetrarmyndir,“ sagði Ólafur.

Dregur fram söguna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindamálaráðherra, óskaði Austfirðingum til hamingju með sýninguna sem hann sagðist vonast til að drægi fram söguna á eystra, þótt hún næði yfir víðfeðmara svæði.

Andrés Skúlason, formaður NAUST, þakkaði öllum þeim sem komið hefðu að uppsetningu sýningarinnar fyrir þeirra miklu og óeigingjörnu vinnu. Sýningin er opin þriðjudaga-föstudag frá 10-17 fram til 25. október.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.