![](/images/stories/news/2016/hverfahatid_djupavogi.jpg)
„Ánægjulegt að sjá hvað íbúar Djúpavogshrepps eru samstilltir“
Íbúar Djúpavogshrepps tóku forskot á sæluna og hituðu upp fyrir þjóðhátíðadaginn með hverfaveislu í íþróttahúsinu um helgina.
„Við höfum undanfarin ár fagnað 17. júní með því að skipta þorpinu í þrjú hverfi – gula gula-, appelsínugula- og bleika, en íbúar hafa verið duglegir við að skreyta þorpið með sínum litum og keppa í ýmsum þrautum,“ segir Þorbjörg Sandholt, formaður ferða- og menningarmálanefndar Djúpavogshrepps.
„Í ár var ákveðið að byrja snemma að kynda upp þjóðhátíðastemmningu og ferða- og menningarmálanefnd stóð fyrir hverfaveislu í íþróttahúsinu síðastliðinn sunnudag.
Skipulagið var sett í hendur íbúa og óhætt að segja að útkoman hafi verið glæsileg – gulir, appelsínugulir og bleikir íbúar fjölmenntu í íþróttahúsið og slógu upp hverfastemmningu með skreytingum og boðið var upp á litríkar veitingar.
Menn gátu svo gengið á milli hlaðborða þar sem bragða mátti m.a. á appelsínugulu brauði, bleikum kökum og hella gulri mjólk út í kaffið.
Markmiðið með svona degi er auðvitað að fólk hittist og hafi gaman saman. Það er ánægjulegt að sjá hvað íbúar Djúpavogshrepps eru samstilltir og tilbúnir í sumarið sem er rétt handan við hornið.“