Áttatíu vélsleðar á Véla- og tækjasafni Vopnafjarðar

„Í sannleika sagt finnst mér það ekkert voðalega gaman,“ segir Hróbjartur Lúthersson aðspurður að því hvort hann fari mikið á mótorhjól eða vélsleða sjálfur, en hann rekur Véla- og tækjasafn Vopnafjarðar ásamt Bárði Jónssyni. Að austan á N4 heimsótti safnið á dögunum. 


Hróbjartur hefur haft óbilandi áhuga á bílum og öðrum farartækjum frá því hann fór að muna eftir sér. „Mér er sagt að ég hafi ekki verið nema tveggja ára gamall þegar ég fór að greina bíla í sundur á framljósunum í mikilli fjarlægð. Ég á einnig eina sterka minningu frá því ég var þriggja ára en pabbi átti ´68 módelið af Ford Fairlane 500 og var að skipta í ´74 módelið af Fiat. Ég var alls ekki sáttur með þessi viðskipti og sat inni í bílnum og grenjaði.“

Hróbjartur segist hafa farið að safna tækjum af alvöru fyrir um tíu árum. „Fyrst var ég að kaupa og selja en þarna var það farið að þróast þannig að ég var bara mest að kaupa. Ætli þetta sé ekki mestmegnis varðveisluárátta, að sjá þetta ekki allt saman fara í ruslið eða pressuna.“

Hefur lítinn áhuga á að nýta tækin sjálfur
Í safninu eru núna um 20 mótorhjól og 80 vélsleðar. Hvaðan fá þeir félagar allt þetta dót?

„Það hafa komið góðæristímar í þessu, við fengum til dæmis gamla safnið frá Mývatni til vörslu fyrir þremur árum. Svo hefur það oft verið þannig að hver einasta helgi hefur verið nýtt í að keyra vítt og breitt um landið til þess að skoða og ná í tæki. Elsti sleðinn er ´46 módel en flestir eru þeir frá árabilinu ´68-´85.“


Á sér einn draumagrip
Hingað til hefur safnið aðeins verið opið en stefnt er að því að það fari í varanlegt húsnæði næsta sumar og ætti því að verða aðgengilegt gestum allt árið.

Hróbjartur telur töluverðan áhuga á safni sem þessu. „Sérstaklega kannski hjá fólki sem var í sveit í gamla daga og man eftir þessu tæki eða hinu. Þeir sem hafa komið og skoðað þetta hjá okkur hafa verið mjög hrifnir.“

Hróbjartur segist hvergi nærri hættur. Hann á sér einn draumagrip sem hann langar mikið að ná í. „Það er Honda CB750 Four ´73 módel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.