Atvinnuleysi tvöfaldast á fáum mánuðum
Fjöldi atvinnulausra á Austurlandi hefur tvöfaldast á innan við hálfu ári. Síðan í október hefur fjölgað jafnt og þétt á skránni og nú eru 424 skráðir atvinnulausir á öllu Austurlandi, 217 karlar og 207 konur.
Oftast eru mun fleiri konur á skrá en karlar. Í lok ágúst voru 199 á atvinnuleysisskrá, 71 karl og 128 konur. Á sama tíma hefur Vinnumálastofnunin á Austurlandi haft úr 8 til 10 störfum að moða. Ekki er endilega víst að hægt sé að finna starfsmenn í öll þau störf því kröfur um sérhæfingu gera það að verkum að ekki passar saman framboð og eftirspurn.
Að sögn Ólafar Guðmundsdóttur, forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Austurlandi, er aðaláherslan í starfi stofnunarinnar um þessar mundir „að koma nýjum atvinnuleitendum fljótt og vel inn í kerfið, þegar viðeigandi gögn hafa borist, svo að hægt sé að tryggja framfærslu atvinnuleitenda. Auk þess er mikil vinna lögð í að kom ungum atvinnuleitendum á aldrinum 16-25 ára í úrræði. Nú í janúarmánuði haf verið haldin námskeið fyrir þennan hóp vítt og breitt um Austurland, frá Hornafirði til Vopnafjarðar og verður vinnunni haldið áfram í því, samkvæmt því stóra verkefni sem kynnt hefur verið á heimasíðu Vinnumálastofnunar undanfarnar vikur. Þá hefur hópur atvinnuleitenda farið í sértæk og lengri úrræði og líkar flestum vel það sem boðið hefur verið upp á. Einnig munum við sinna öðrum atvinnuleitendum á næstu vikum eins og við mögulega getum. Við erum í nánu samstarfi við ÞNA og er það mjög mikilvægt á þessum tíma," segir Ólöf .