Austfirðingar hjálpa Dönum við að undirbúa skíðahátíð

Tveir austfirskir nemar í dönskum lýðháskóla undirbúa ásamt bekkjarsystkinum sínum stóra skíða- og brettahátíð sem haldin verður í Árósum eftir tvær vikur. Þeir segja Danina hafa verið betri skíðamenn en þeir áttu von á.


Héraðsbúarnir Stefán Númi Stefánsson og Hjörtur Bergsveinn Þórarinsson hafa síðan í janúar verið í námi við íþróttalýðháskólann í Sönderborg, syðst á Jótlandi. Þeir eru hluti af sautján manna námsbraut í viðburðastjórnun sem unnið hefur allt árið að viðburðinum undir leiðsögn tveggja kennara.

Viðburðurinn ber heitið Frostbite og verður einn stærsti viðburður ársins í Danaveldi í skíða- og brettafimi en búist er við um þúsund áhorfendum. Unnið er með viðburðafyrirtækinu Playground Snow sem er með samninga við keppendur sem mæta. Til hliðar við sýningarnar verða sölubásar og æfingasvæði þar sem hægt er að prófa jafnvægislistir.

Stemmingin vaknar þegar hátíðin nálgast

Stefán Númi og Hjörtur segja áhuga og getu Dana á skíðum hafa komið þeim á óvart enda landið ekki þekkt fyrir mikinn snjó eða brekkur til að renna sér.

„Við fengum að kynnast honum þegar við fórum í skíðaferð í byrjun febrúar. Fyrir hana þurftum við að gefa upp hversu margar vikur við hefðum verið á skíðum og okkur Íslendingunum fannst það heimskulegt því við getum nánast farið hvenær sem er á skíði,“ segir Stefán Númi.

„Ég hló líka að þessu fyrst en svo kom í ljós að flestir krakkarnir voru mun betri en ég. Það er vinsælt hér að fara í frí með fjölskyldunni á skíði í Ölpunum,“ bætir Hjörtur við.

Frá Sönderborg til Árósa er tveggja tíma ferð með lest og dagarnir lengjast nú þegar ferðunum fjölgar í aðdraganda Forstbite.

„Það byggist upp stemming núna þegar fólk áttar sig á að þetta er að fara að gerast. Eftir að við fengum styrktaraðila að verkefninu vitum við að það kemur fólk og einn stærsti brettavefur Danmerkur fjallaði um okkur í morgun. Við vonum að viðburðurinn komi svo til með að lifa.“

„Mesta og besta skyndiákvörðun lífs míns“

Félagarnir una hag sínum vel í Sönderborg og virðast ekki á heimleið þótt skólaárinu sé að ljúka. „Við fórum upphaflega þrír út. Vinur minn Lauritz Karlsson sagði mig í október í fyrra að hann ætlaði út og reyndi að draga mig með. Ég streittist á móti í fyrstu en lét svo vaða,“ segir Hjörtur Bergsveinn.

„Stefán Númi skráði sig í skólann þremur dögum áður en við fórum út. Hann hringdi í mig í spani og spurði hvað skólinn héti. Ég sagði honum upp og hann svaraði: „Gott, ég hringi aftur eftir smá.“ Síðan var allt græjað á nokkrum mínútum til að koma með.“

Stefán Númi sér ekki eftir ákvörðuninni. „Þetta er mesta og besta skyndiákvörðun lífs míns.“

Lauritz fór heim eftir fyrri önnina en Hjörtur og Stefán Númi urðu eftir. „Okkur langaði til að leika okkur meira úti. Við erum síðan komnir með boð um vinnu hjá skólanum sem húsverðir, annars strax eftir áramót en hinn í apríl.

Danirnir tóku vel í umleitanir okkar þegar við fórum að spyrjast fyrir um vinnu og við höfum vinnureynslu síðan í sjöunda bekk sem dönsk ungmenni hafa ekki. Sum þeirra hafa aldrei haldið á hamri.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.