Skip to main content

Austfirðingar sýna Grænum dögum í HÍ mikinn áhuga

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. mar 2013 22:08Uppfært 08. jan 2016 19:24

green_days-ad-fs.jpg
Talsverður áhugi er meðal Austfirðinga á Grænum dögum í Háskóla Íslands sem settir verða á mánudag. Þema daganna í ár er sköpun og sjálfbærni í hönnun og listum. Forsvarsmenn daganna segjast hafa ákveðið að taka upp fyrirlestra þemadaganna til að svara eftirspurn að austan.

„Það er greinilega mikil gróska í hinum skapandi greinum fyrir austan. Þaðan urðum við vör við áhuga á fyrirlestrunum. Til að verða við þeim óskum ákváðum við að taka upp fyrirlestrana og setja þá á netið eftir á til að allir geti notið þeirra,“ segir Davíð Fjölnir Ármannsson, formaður GAIA, félags nemenda í umhverfis- og auðlindafræðum sem stendur að dögunum.

Stærsti viðburður Grænna daga verður án efa fjarfyrirlestur ameríska arkitektsins og hönnuðarins William McDonough og verður því í beinni frá San Francisco. McDonough er þekktastur fyrir Cradle-to-cradle hugmyndafræði sína sem myndi útleggjast á íslensku sem „Frá vöggu til vöggu”.  

Hugmyndafræði McDonough, sem hann lýsir í samnefndri bók sinni, hefur það að markmiði að hjálpa framleiðendum og hönnuðum að takmarka áhrif framleiðslu sinnar og vara á umhverfi og náttúru. 

Þannig hafa fyrirtæki á borð við Nike hannað skó sem eru að fullu endurvinnanlegir. Einnig hefur McDonough aðstoðað bílaframleiðandann Ford við hönnun sjálfbærrar byggingar undir verksmiðju fyrirtækisins og Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, einnig fyrir sjálfbæra byggingu stofnunarinnar.

„William McDonough er poppstjarna meðal umhverfisfræðinga og hugmyndafræði hans á margan hátt byltingarkennd. Það er okkur því mikill heiður að hann hafi tíma til ræða við okkur,“ segir Davíð.

Viðburðir sem í boði verða á dögunum eru meðal annars hádegisfyrirlestrar, kvikmyndasýningar, fataskiptamarkaður, listverkasýning, vinnustofur, spurningakeppni og fleira.

Allar nánari upplýsingar um Græna daga Háskólans og dagskrá þeirra er að finna á heimasíðu Gaia og á fésbókarsíðu Grænna daga.

Lykilatburðir Grænna daga 2013

Mánudagur 18. mars
12:00-12:30 Opnunarathöfn á Háskólatorgi. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektur HÍ og Davíð Fjölnir Ármannsson flytja ávörp.
12:30-13:10: Fyrirlestur: Gerðu ferðalögin þín umhverfisvænni í samstarfi við Hostelling International. Stofa 304 í Árnagarði. Fyrirlesturinn verður tekinn upp.
18:00-19:00 Sorpganga frá Háskólatorgi á Reykjavík Downtown farfuglaheimilið
20:00-21:00 Kvikmyndasýning og umræður: „Waste = Food“ á Reykjavík Downtown farfuglaheimilinu.

Þriðjudagur 19. mars
12:30-13:10 Fyrirlestur: Alda, Að skapa sjálfbær þorp í stofu 131 í Öskju. Fyrirlesturinn verður tekinn upp.
17:00-18:00 Fyrirlestur: William McDonough, Cradle to Cradle, í stofu 105 á Háskólatorgi. Fyrirlesturinn verður tekinn upp.
20:00-21:00 Kvikmyndasýning: Stuttmyndir um umhverfisvernd @Stúdentakjallarinn

Miðvikudagur 20. mars
12:30-13:10 Fyrirlestur: Við borðum okkur leið að sjálfbærri matvælahönnun: Reynsla sigurvegara Ecotrophelia keppninnar 2012. Stofa 207 í Aðalbyggingu HÍ. Fyrirlesturinn verður tekinn upp.
20:00-21:30 Kvikmyndasýning: „Chasing Ice“ í stofu 105 á Háskólatorgi.

Fimmtudagur 21. mars
12:30-13:10 Fyrirlestur: Að skapa sjálfbæra list og nýsköpun. Stofa 102 í Gimli. Fyrirlesturinn verður tekinn upp.
20:00-21:30 Kvikmyndasýning „Home“ í stofu 105 á Háskólatorgi.

Föstudagur 22. mars
12:30-13:10 Fyrirlestur: Að móta sjálfbæra tísku.í stofu 103 í Lögbergi.
17:30-19:00 Vinnustofa: Ferðalög í sjálfbærri framtíð á LOFT farfuglaheimili,
21:00-01:00 Lokatónleikar Grænna daga í Stúdentakjallaranum. Fram koma: Boogie Trouble, 1860 og Kanilsnældur.