Austfirskar sveitir í tónleikaferð um fjórðunginn

Hljómsveitirnar Máni & The Roadkiller og Murmur hefja í kvöld tónleikaferð um fjórðunginn í Neskaupstað en þær spila síðan á Egilsstöðum á laugardag.


„Ástæðan til að gera þetta er kannski smá vitundarvakning fyrir tónlistarlífið á Héraði sem hefur verið lægð undanfarin ár hvað varðar flutning á frumsömdu efni,“ segir Hafþór Máni Valsson sem fer fyrir fyrrnefndu sveitinni.

Í henni eru auk hans Davíð Logi Hlynsson, Friðrik Jónsson og Pálmi Stefánsson. Murmur mynda Daði Þór Jóhannsson, Bergsveinn Ás Hafliðason og Ívar Andri Bjarnason.

Máni segist hafa sett sig í samband við föður Ívars Andra, Bjarna Þór Haraldsson, og þá hafi hlutirnir farið að rúlla. „Ég er meiri hugsuður en hann framkvæmdamaður þannig hann fór í að bóka tónleika.“

Murmur hafa verið duglegir að spila að undanförnu og voru meðal annars á Jazzhátíð í fyrra. Minna hefur farið fyrir Mána & The Roadkillers en hann segir báðar sveitir hyggja á plötuútgáfu á næstunni.

Norðfirsku sveitirnar Oni og Insomnia spila með á tónleikunum í Egilsbúð sem hefjast klukkan 20:00. Næstu tónleikar verða í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld.

Máni segir síðan fyrirhugað að heimsækja Vopnafjörð, Seyðisfjörð og Stöðvarfjörð en það verði nánar kynnt síðar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.