![](/images/stories/news/2015/murmur.jpg)
Austfirskar sveitir í tónleikaferð um fjórðunginn
Hljómsveitirnar Máni & The Roadkiller og Murmur hefja í kvöld tónleikaferð um fjórðunginn í Neskaupstað en þær spila síðan á Egilsstöðum á laugardag.
„Ástæðan til að gera þetta er kannski smá vitundarvakning fyrir tónlistarlífið á Héraði sem hefur verið lægð undanfarin ár hvað varðar flutning á frumsömdu efni,“ segir Hafþór Máni Valsson sem fer fyrir fyrrnefndu sveitinni.
Í henni eru auk hans Davíð Logi Hlynsson, Friðrik Jónsson og Pálmi Stefánsson. Murmur mynda Daði Þór Jóhannsson, Bergsveinn Ás Hafliðason og Ívar Andri Bjarnason.
Máni segist hafa sett sig í samband við föður Ívars Andra, Bjarna Þór Haraldsson, og þá hafi hlutirnir farið að rúlla. „Ég er meiri hugsuður en hann framkvæmdamaður þannig hann fór í að bóka tónleika.“
Murmur hafa verið duglegir að spila að undanförnu og voru meðal annars á Jazzhátíð í fyrra. Minna hefur farið fyrir Mána & The Roadkillers en hann segir báðar sveitir hyggja á plötuútgáfu á næstunni.
Norðfirsku sveitirnar Oni og Insomnia spila með á tónleikunum í Egilsbúð sem hefjast klukkan 20:00. Næstu tónleikar verða í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld.
Máni segir síðan fyrirhugað að heimsækja Vopnafjörð, Seyðisfjörð og Stöðvarfjörð en það verði nánar kynnt síðar.