
Austfirskt tónlistarfólk heiðrar aldarminningu Jóns Þórarinssonar
Austfirskir tónlistarmenn koma saman til að halda upp á aldarminningu Jóns Þórarinssonar, tónskálds, í Egilsstaðakirkju á sunnudag. Veðrið hefur sett strik í reikning nokkurra viðburða sem áttu að vera í kvöld og á morgun.Heiðurstónleikarnir áttu upphaflega að vera á laugardag en hefur verið frestað um sólarhring og verða klukkan 16:00 á sunnudag. Þar koma fram þrír austfirskur kórar ásamt mörgu af færasta tónlistarfólki Austurlands.
„Hugmyndin að gera eitthvað í tilefni af aldarafmæli Jóns kviknaði fyrir einum þremur árum. Ég vildi stefna að því að gera eitthvað með austfirsku tónlistarfólki því mér finnst skipta máli að skapa því hæfileikafólki sem býr víða um land tækifæri við hæfi,“ segir Þórunn Gréta Sigurðardóttir, skipuleggjandi tónleikanna.
Útsetti þjóðsönginn
Jón fæddist á Gilsárteigi í Eiðaþinghá en flutti að heiman þegar hann fór í Menntaskólann á Akureyri þar sem hann stundaði einnig tónlistarnám. Hann hóf fyrst störf hjá Ríkisútvarpinu árið 1938 en RÚV styrkt hann síðan til framhaldsnáms í tónlist í Yale-háskólanum í Bandaríkjunum 1944-1947.
„Jón var meðal fyrstu Íslendinganna til að fara í framhaldsnám í klassískum tónsmíðum á tíma þar sem ekki einu sinni var sjálfsagt að fara í nám frá Austurlandi,“ útskýrir Þórunn Gréta.
Hann snéri aftur heim og starfaði hjá RÚV til ársins 1979. Hann kom víða við í íslenskri menningu, var meðal annars framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar, formaður Bandalags íslenskra listamanna, formaður STEFs og skrifaði greinar og bækur, til dæmis ævisögu Sveinbjörn Sveinbjörnssonar, sem samdi íslenska þjóðsönginn. Útsetningin sem oftast er leikin að Lofsöngnum er einmitt eftir Jón. Eftir Jón liggja mörg þekkt tónverk og sönglög, svo sem Fuglinn í fjörunni og Íslenskt vögguljóð á Hörpu.
„Hann sinnti ekki bara eigin verkum heldur kom víða við og tók þátt í að byggja upp alla innviði íslensks tónlistar- og menningarlífs,“ segir Þórunn Gréta.
„Það hefur verið fróðlegt fyrir mig að fara yfir verk Jóns. Mér hefur alltaf fundist Austfirðingar halda Inga T. Lárussyni mjög á lofti, sem er verðskuldað en Jón er af annarri kynslóð. Ég vona að þessir tónleikar kynni Austfirðinga fyrir verkum hans og flytjendurnir geri þau síðar að sínum.“
Meðal þeirra sem fram koma á tónleikunum eru Karlakór Vopnafjarðar, Kór og Kammerkór Egilsstaðakirkju, Suncana Slamning, Erla Dóra Vogler og Árni Friðriksson.
Ljósagöngu og blakleik frestað
Veðrið hefur setti sitt mark á helgina. Þannig hefur auglýstri ljósagöngu UN Women á vegum Sorptimistaklúbbs Austurlands á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi á morgun verið frestað um viku.
Toppslag Þróttar og Stjörnunnar í úrvalsdeild kvenna í blaki sem fara átti fram í Neskaupstað í kvöld hefur verið frestað til klukkan tólf á sunnudag. Stjörnuliðið kom austur með flugi í dag en kemst ekki á áfangastað þar sem ófært er yfir Fagradal. Enn er stefnt að því að leikur liðanna klukkan 14:00 fari fram á auglýstum tíma.
Tvö útgáfuhóf
Söngvarinn Guðmundur R. Gíslason heldur tónleika í tilefni af útgáfu plötunnar Þúsund ár í Egilsbúð í Neskaupstað annað kvöld. Flutt verða lögin af nýju plötunni í bland við gamalt efni. Sérstakur gestur verður Jón Ólafsson sem auk þess að koma fram með hljómsveitinni mun leika þrjú lög frá sínum eigin sólóferli. Þá mun hljómsveitin Coney Island Babies spila tvö lög auk þess sem hún mun flytja glænýja ábreiðu af sígildum Súellen-slagara. Húsið opnar klukkan 21.
Útgáfu unglingabókarinnar „Nei, nú ert‘ að spauga Kolfinna“ eftir Hrönn Reynisdóttur verður fagnað í Dahlshúsi á Eskifirði á sunnudag. Bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar „Ert‘ ekki að djóka, Kolfinna?“ sem kom út í fyrra og er orðin uppseld. Eskifjörður, þar sem Hrönn býr, er sögusvið bókanna beggja. Útgáfuhófið er klukkan 17:00 og mun Hrönn lesa upp úr bókina og árita fyrir áhugasama.