Aðventa lesin í Reykjavík og Berlín á sunnudag

skriduklaustur.jpg
Aðventa, sagan um Fjalla-Bensa og svaðilfarir hans á fjöllum vikurnar fyrir jól, sem Gunnar Gunnarsson skrifaði árið 1936 hefur unnið sér sess sem jólasaga hérlendis hin síðari ár. Á hverju ári er hún lesin í Útvarpinu síðustu daga fyrir jól og lestri hennar lokið síðdegis á aðfangadag. Á síðustu árum hefur sá siður jafnframt skotið rótum að lesa skáldsöguna upphátt fyrir gesti víða um land og einnig erlendis. 

Í ár dreifist upplestur á Aðventu á tvær helgar á þeim stöðum sem vitað er um. Sunnudaginn 9. desember mun Hjörtur Pálsson lesa söguna í Gunnarshúsi í Reykjavík að Dyngjuvegi 8. Rithöfundasamband Íslands stendur fyrir þeim lestri. Aðgangur er ókeypis og heitt á könnunni en lesturinn hefst kl. 13.30. 

Sama dag verður Aðventa lesin á þýsku í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlín kl. 14.00. Þar mun þýski leikarinn Matthias Scherwenikas lesa söguna og verður boðið upp á íslenskt bakkelsi í hléi. Sendiráð Íslands og Gunnarsstofnun standa fyrir þeim upplestri en Aðventa kom fyrst út á þýsku hjá forlaginu Reclam árið 1936 og er vel þekkt meðal þýskra unnenda íslenskra bókmennta.

Á þriðja sunnudegi í aðventu, hinn 16. desember, verður Aðventa lesin samtímis á tveimur stöðum. Menningarmiðstöð Þingeyinga stendur fyrir upplestri á Grenjaðarstað og hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri í Fljótsdal mun Ævar Kjartansson lesa söguna. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 14 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.