Báðir skólarnir úr leik í Gettu betur
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. jan 2021 14:57 • Uppfært 14. jan 2021 14:58
Bæði lið Verkmenntaskóla Austurlands og Menntaskólans á Egilsstöðum eru úr leik í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur.
VA tók þátt í fyrstu keppni ársins á mánudagskvöld í síðustu viku og mætti þar Tækniskólanum, sem vann 29-11. Lið VA skipuðu að þessu sinni Helena Lind Ólafsdóttir, Hlynur Karlsson og Ragnar Þórólfur Ómarsson en það þjálfaði Birgir Jónsson.
ME mætti svo til leiks tveimur dögum síðar og vann Menntaskólann við Sund 22-10. ME keppti svo í fyrrakvöld við Kvennaskólann í Reykjavík en tapaði 14-32. Lið Kvennaskólans varð stigahæst í annarri umferðinni. Lið ME skipuðu þau Almar Aðalsteinsson, Ásdís Hvönn Jónsdóttir og Gunnar Einarsson en Stefán Bogi Sveinsson þjálfaið.
Fyrstu tvær umferðirnar fóru fram í útvarpi en sjónvarpshluti keppninnar hefst með þriðju umferðinni, átta liða úrslitunum. Því miður verður ekkert austfirskt lið þar í ár.
Lið ME 2021. Mynd: ME