Bætt aðstaða til að skoða lundann á Borgarfirði: Allir virðast spyrja eftir fuglinum

Borgfirðingar tóku nýverið í notkun fuglaskoðunarskýli í Hafnarhólma með aðstöðu fyrir ljósmyndara og aðra sem hafa áhuga á að skoða lundann. Fuglinn er eitt helsta aðdráttarafl þeirra sem heimsækja fjörðinn.


„Það er giskað á að 80% þeirra erlendu ferðamanna sem koma til að Borgarfjarðar komi til að skoða lundann. Þess vegna leggjum við upp úr aðstöðunni og aðgengið hér er mögulega það besta í heimi,“ segir Jón Þórðarson sveitarstjóri.

„Lundinn virðist mjög merkilegur fugl. Allir spyrja eftir honum. Það kemur hingað fólk úr Austurlöndum fjær til að skoða hann.“

Árið 1996 var byrjað að byggja upp aðstöðu fyrir fuglaskoðara í Hólmanum að frumkvæði Magnúsar Þorsteinssonar, bónda í Höfn.

„Ég tók eftir því að ferðamenn höfðu meiri áhuga á að skoða lundann heldur en höfnina og bátana. Ég bar þessa hugmynd því undir hreppsnefndina og hún tók vel í hana, eins og önnur góð verk,“ segir Magnús.

Áhuginn annars staðar á svæðinu var ekki jafn mikill. „Þegar við opnuðum þetta í júní 1997 sendi ég fréttatilkynningar á svæðisútvarpið og héraðsfréttablöðin hér fyrir austan. Það fannst engum það merkilegt að neitt væri birt,“ rifjar Magnús upp.

Aðsóknin hefur hins vegar margfaldast og í fyrra er áætlað að milli 30 og 40 þúsund gestir hafi heimsótt Hafnarhólmann. Ástæða var því talin til að bæta aðstöðuna.

„Ég smíðaði þetta skýli í flekum heima í hlöðu í vetur. Svo tóku hrepparar við því, steyptu undirstöður og reistu það,“ segir Magnús.

Lundinn virðist ekki kippa sér mikið upp við ferðamennina. „Það liggur stundum við að mér finnist fuglinn vera athyglissjúkur,“ segir Magnús.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.