![](/images/stories/news/folk/stefan_thorleifsson_nov15.jpg)
Bandarískt morgunsjónvarp leitar að leyndarmálinu að langlífi hjá Stefáni Þorleifssyni - Myndband
Útsendari bandaríska morgunþáttarins NBC Today heimsótti Stefán Þorleifsson í Neskaupstað til þess að leita að leyndarmálinu að langlífi. Hann endaði í þorraveislu og heita pottinum.
Þáttastjórnendum lék hugur á að fræðast um hvers vegna Íslendingar væru meðal langlífustu þjóða heims þrátt fyrir harðneskjulegt umhverfi.
Þeir fóru því austur og hittu Stefán sem verður 100 ára í ágúst. Hann syndir og stundar hreyfingu á hverjum degi og fylgir þáttastjórnandi honum þar eftir.
„Gerðirðu þetta á hverjum degi,“ er Stefán spurður þegar hann er að gera morgunæfingarnar og svarið er: „Já, meira að segja um jólin.“
Þáttastjórnandinn reynir líka að spyrjast fyrir hjá fræðimönnum og hittir fyrri Kára Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hann bendir á að Íslendingar hafi alltaf búið við erfiða náttúru og náttúruvalið hafi alið af sér harðgert fólk.
Svarið er svipað hjá Stefáni þegar hann er spurður um lykilinn að langlífinu. „Ég veit það ekki, kannski voru það foreldrar mínir,“ segir hann og hlær.
Today þátturinn er sendur út á hverjum morgni og er áætlað að um fimm milljónir Bandaríkjamanna horfi á hann að meðaltali. Þátturinn hóf göngu sína árið 1952 og er í dag næst vinsælasti morgunþátturinn vestan hafs á eftir Good Morning America á ABC.