Ben Stiller á Seyðisfirði: Kurteis og vingjarnlegur við alla
Seyðfirðingar bera honum vel söguna, hann verið vingjarnlegur og heilsað fólki með handabandi. Hann hafi tekið vel í að stilla sér upp með Seyðfirðingum á mynd og meðal annars stillt sér upp með starfsfólki Samkaupa á staðnum.
„Hann er mjög almennilegur náungi, laus við allan hroka og leyfði okkur að taka myndir af okkur með honum,“ segir Ingibjörg Lárusdóttir en hún var einn þeirra Seyðfirðinga sem hittu Hollívúddstjörnuna.
„Það er mjög gaman að hafa svona frægan mann í bænum sem er ekki með neina stjörnustæla. Hann var kurteis, glaður og vingjarnlegur við alla.“
Ben Stiller tók vel í myndatökur með Seyðfirðingum. Hér er hann ásamt Samkaupsfólki. Mynd: Agnes Berg Gunnarsdóttir