
Bílamerkingar í uppáhaldi
„Mínir kúnnar eru í rauninni út um allt land,“ segir Sigfús Heiðar Ferdinandsson, eigandi Skiltavals á Reyðarfirði, en Að austan á N4 leit við hjá Heiðari fyrir jól.
Skiltaval framleiðir allar tegundir skilta, fræsta stafi, strigamyndir og fleira. Verkefnin eru fjölbreytt og Heiðar veit sjaldnast hvernig hver dagur verður.
„Þetta byggist rosalega mikið upp á prentun, tölvuskurði og álímingu, en svo koma dagar þar sem eru bílamerkingar, fatamerkingar eða þar sem ég er að líma einhversstaðar úti – þannig að þetta er mjög breytilegt og fjölbreytt.“
Hvað er skemmtilegasti hluti starfsins? „Þetta er erfið spurning. Mér finnst alltaf skemmtilegt að glíma við bílamerkingar.“