Bílaþvottur á Breiðdalsvík

Þrír vaskir krakkar buðu vegfarendum um Breiðdalsvík bílaþvott gegn vægu gjaldi þar í vikunni.

„Við bjuggum þetta til í dag. Við ætlum að hafa opið alla daga í sumar nema þriðjudaga og almenna frídaga.

Á þriðjudögum erum við á frjálsíþróttaæfingum í gegnum farandþjálfun UÍA. Annars getum verið að verðum hér einhvera frídaga,“ sögðu þau Börkur Diljan Kristjánsson, 8 ára, Heiðbjörg Helga Stefensen Árnadóttir 8 ára og Stormur Logi Styrmisson 10 ára.

Þau voru búin að þvo þrjá bíla þegar Austurfrétt renndi við hjá þeim með ummerki um að hafa farið yfir Breiðdalsheiði.

Þau stóðu við götuna með skilti til að bjóða bílaþvottinn. „Ég var skammaður einu sinni fyrir að fara of langt út á götuna. Mér fannst það dálítið grimmur kall en ég læri af því,“ segir Stormur Logi.

Þau sögðu að margir hefðu hægt á til að lesa á skiltið og látið þau orð falla að þau myndu mögulega nýta þjónustuna síðar.

Stormur Logi býr á Egilstöðum en dvelur gjarnan hjá afa sínum og ömmu á Breiðdalsvík og hann vel við sig þar. Þremenningarnir sögðu að hann yrði með í gegnum síma í bílaþvotti þótt hann yrði ekki á staðnum.

Þau voru ánægð með viðskiptin og kváðust ætla nýta ágóðann í að kaupa sér franskar kartöflur í kaupfélaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.