![](/images/stories/news/umhverfi/obyggdasetur_klafur.jpg)
Blaðamaður Guardian óskaði sér meiri tíma á Austurlandi
Blaðamaður breska stórblaðsins the Guardian virðist hafa verið ánægður með dvöl sína á Austurlandi síðasta haust miðað við grein sem birtist í blaðinu um helgina. Hann upplifði meðal annars að fólk með rætur eystra væri að leita aftur heim.
Ferðin hefst inni í Fljótsdal þar sem svæði Óbyggðasetursins er skoðað. Steingrímur Karlsson er dæmi um fólkið sem snúið hefur heim, kvikmyndagerðarmaður sem búið hefur í Bandaríkjunum og Reykjavík en var í sveit í dalnum og hefur nú byggt þar upp setrið.
Þeir ferðast saman í kláfferjunni við Kleif og Denni segir sögu af því þegar bóndinn þar datt úr gamla kláfnum í Jökulsána. Upp úr henni var hann dreginn meðvitundarlaus en var síðan farinn að vinna aftur þremur dögum síðar.
Leiðin liggur líka í Karlsstaði í Berufirði þar sem Berglind Häsler er gestgjafinn. „Ég óttaðist að okkur myndi leiðast en í raun kemur fjöldi fólks hér við. Ég held að ég gæti aldrei farið aftur til Reykjavíkur.“
Blaðamaðurinn segist vel geta ímyndað sér að eyða meira en einni nótt á Seyðisfirði en ekki er til setunnar boðið þar sem gengið er á Snæfell morguninn eftir með Skúla Júlíussyni.
Eftir gönguna er farið undir heita fossinn í Laugavalladal. „Við erum undir fossinum þar til sólin sest og minnir okkur á að fara.“
Í greininni er lýst hvernig fossarnir falla niður fjallshlíðarnar og sólargeislarnir gægjast milli skýjanna meðan ekið er framhjá hverju býlinu með rauðu þaki á fætur öðru. Og lokaniðurstaðan er: „Ég þarf meiri tíma á Austurlandi.“
Greinin er hluti af markaðssetningu Austurlands í Bretlandi í tengslum við áætlunarflug Discover the World til Egilsstaða í sumar. Guardian er eitt vinsælasta dagblað Bretlands og vefur þess einn sá vinsælasti í heiminum með yfir 40 milljónir lesenda.