Blaðamaður Guardian óskaði sér meiri tíma á Austurlandi

Blaðamaður breska stórblaðsins the Guardian virðist hafa verið ánægður með dvöl sína á Austurlandi síðasta haust miðað við grein sem birtist í blaðinu um helgina. Hann upplifði meðal annars að fólk með rætur eystra væri að leita aftur heim.


Ferðin hefst inni í Fljótsdal þar sem svæði Óbyggðasetursins er skoðað. Steingrímur Karlsson er dæmi um fólkið sem snúið hefur heim, kvikmyndagerðarmaður sem búið hefur í Bandaríkjunum og Reykjavík en var í sveit í dalnum og hefur nú byggt þar upp setrið.

Þeir ferðast saman í kláfferjunni við Kleif og Denni segir sögu af því þegar bóndinn þar datt úr gamla kláfnum í Jökulsána. Upp úr henni var hann dreginn meðvitundarlaus en var síðan farinn að vinna aftur þremur dögum síðar.

Leiðin liggur líka í Karlsstaði í Berufirði þar sem Berglind Häsler er gestgjafinn. „Ég óttaðist að okkur myndi leiðast en í raun kemur fjöldi fólks hér við. Ég held að ég gæti aldrei farið aftur til Reykjavíkur.“

Blaðamaðurinn segist vel geta ímyndað sér að eyða meira en einni nótt á Seyðisfirði en ekki er til setunnar boðið þar sem gengið er á Snæfell morguninn eftir með Skúla Júlíussyni.

Eftir gönguna er farið undir heita fossinn í Laugavalladal. „Við erum undir fossinum þar til sólin sest og minnir okkur á að fara.“

Í greininni er lýst hvernig fossarnir falla niður fjallshlíðarnar og sólargeislarnir gægjast milli skýjanna meðan ekið er framhjá hverju býlinu með rauðu þaki á fætur öðru. Og lokaniðurstaðan er: „Ég þarf meiri tíma á Austurlandi.“

Greinin er hluti af markaðssetningu Austurlands í Bretlandi í tengslum við áætlunarflug Discover the World til Egilsstaða í sumar. Guardian er eitt vinsælasta dagblað Bretlands og vefur þess einn sá vinsælasti í heiminum með yfir 40 milljónir lesenda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.