![](/images/stories/news/folk/ragnhildur_ros_rki_jan16_0002_web.jpg)
Borga helminginn af lyfjum fyrir heilsugæslu í Sómalíu: Nytjamarkaðurinn forsenda styrkjanna
Rauða krossdeild Fljótsdalshéraðs styrkti nýverið heilsugæsluverkefni í Sómalíu um 400.000 krónur eða um helming þeirrar upphæðar sem verkefnið greiðir fyrir lyf á hverju ári. Formaður deildarinnar segir nytjamarkað hennar gera styrki sem þessa mögulega.
Rauði krossinn er með styrktarverkefni víða um heim og undanfarin ár hefur deildin á Héraði stutt við verkefni í Malaví. Því er hins vegar að ljúka og nýtt verkefni á vegum norrænu rauða krossdeildirnar að hefjast.
Héraðsmenn ákváðu því að beina styrk sínum annað og fyrir valinu varð verkefni í nágrenni Hargeisa í Sómalíu.
„Það er talað um heilsugæslu á hjólum. Heilbrigðisstarfsfólk fer út á meðal hirðingjanna og veitir mæðravernd, ungbarnaeftirlit og aðra grunn heilsugæslu. Ég vann um tíma í Afríku og veit að það vantar alltaf lyf. Okkar framlag er 400.000 sem er um helmingur þess fjár sem verkefnið eyðir í lyf á ári,“ segir Ragnhildur Rós Indriðadóttir, formaður deildarinnar.
Til viðbótar styrkir deildin ýmis verkefni í nærumhverfi sínu, svo sem Jólasjóðinn, stendur fyrir skyndihjálparnámskeiðum og heldur úti heimsóknarvinum.
Fjáröflun deildarinnar fer mest fram í gegnum nytjamarkað og fatamarkað sem til þessa hafa verið á sitt hvorum staðnum á Egilsstöðum. Um helgina flytur nytjamarkaðurinn í sama hús og fatamarkaðinn og verður framvegis til húsa þar sem verslunin Skógar voru áður.
„Markaðurinn hefur verið í núverandi húsnæði í slétt ár. Þá fórum við úr 30 fermetrum í 90 og fannst við hafa rosalega mikið pláss. Núna förum við í 250 fermetra pláss og mér sýnist það vera að fyllast líka,“ segir Ragnhildur.
Sjálfboðaliðar hafa í vikunni unnið við uppröðun í búðinni sem opin verður í fyrsta sinn á nýjum stað milli 12 og 15 á laugardag.