Borgfirðingar fagna komu lundans á sumardaginn fyrsta

Borgfirðingar fagna komu lundans á morgun og Héraðsbúar geta heimsótt Safnahúsið eða skroppið í Skriðuklaustur í tilefni sumarkomunnar.



„Það hefur verið hefð hjá okkur nokkrum á þessum árstíma að hittast á höfninni og fagna komu lundans með nokkrum viskístaupum, en í ár ákváðum við að bjóða öllum sem vilja að vera með okkur og mæta á höfnina um kvöldmatarleitið,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Álfheima.

„Lundinn hefur verið að tínast í Hafnarhólmann síðan 7. apríl, þó svo hann hafi verið kominn á sjóinn viku fyrr, en allar slíkar dagsetningar eru skráðar mörg ár aftur í tímann í dagbókina hans Magnúsar í Höfn, sem er annar eigandi Hafnarhólmas með Borgarfjarðarhreppi.

Léttar veitingar verða í boði Borgarfjarðarhrepps og við hvetjum alla til þess að koma og gera sér glaðan dag með okkur og skoða í leiðinni nýtt hús sem mun bæta aðstöðu til lundaskoðunar, en það má einnig vekja athygli á því að lundinn hjá okkur hefur það gott, hér er enginn skortu á æti eins og víða fyrir sunnan.“

Gleðin hefst á höfninni klukkan 20:00 annað kvöld.


Opið hús og afmælisfagnaður í Safnahúsinu á Egilsstöðum

Söfnin þrjú í Safnahúsinu á Egilsstöðum opna dyr sínar á sumardaginn fyrsta og bjóða til afmælisfagnaðar frá klukkan 13:00-15:00.

Árið 2016 er mikið afmælisár í Safnahúsinu á Egilsstöðum, en á árinu eru 60 ár liðin frá stofnun Bókasafns Héraðsbúa, 40 ár frá stofnun Héraðsskjalasafns Austfirðinga og 20 ár frá því að fyrsti áfangi Safnahússins var formlega tekinn í notkun og söfnin þrjú, Bókasafnið, Héraðsskjalasafnið og Minjasafnið, fluttu undir eitt þak.

Gestum og gangandi gefst kostur á að kynna sér fjölbreytta starfsemi safnanna og skoða sýningar á öllum hæðum. Fyrrverandi og núverandi starfskonur safnanna flytja ávörp, stúlknakórinn Liljurnar syngur og boðið verður upp á léttar veitingar.


Fyrirlestur um nýjar rannsóknir á beinasafni Skriðuklausturs

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, flytur erindi á Skriðuklaustri undir heitinu Gull, silfur og fleiri góðmálmar, á morgun klukkan 16:00. Í því mun hún fjalla um nýjustu rannsóknir á beinasafni Skriðuklausturs sem hafa leitt í ljós óvenjuhátt hlutfall þungmálma í beinum.

Einnig mun hún segja frá leit sinni í Kaupmannahöfn að skjölum sem geta varpað ljósi á hvert gripir og góðmálmar úr klaustrunum voru fluttir eftir siðaskiptin.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Ljósmynd: Hafþór Snjólfur Helgason

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.