Bowie „trendsetter“ í tónlist og tísku

„Við erum ekki með neina landsfræga tónlistarmenn eða söngvara eins og oft er með tónleika sem þessa, en ákváðum að gera þetta sjálf þar sem við höfum alla burði til þess,“ segir Guðmundur R. Gíslason, forsprakki minningartónleika um David Bowie sem haldnir verða á Græna Hattinum á Akureyri á föstudaginn.



„Kveikjan af tónleikunum er sú að lítill hópur tónlistarfólks í Neskaupstað hafði ákveðið að gera eitthvað saman á þessu ári. Uppi voru ýmsar hugmyndir en eftir andlát Bowie kom ekkert annað til greina en að heiðra hann, enda við miklir aðdáendur hans

Það var hefð fyrir því að fara með Brján-sýningarnar suður en það hefur farið lítið fyrir ferðalögum síðari ár. Við héldum sömu tónleika í Egilsbúð í júní og þóttu þeir takast það vel að áhugi var hjá hópnum að fara með þá víðar og við byrjum á Græna hattinum á föstudaginn. Fleiri staðir á Austurlandi eru í kortunum en verða nánar auglýstir síðar.“


Óli Palli kynnir án þess að vera á staðnum

Tónleikarnir eru haldnir af Brján (Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi) í samstarfi við Hljóðkerfaleigu Austurlands, en sjö manna hljómsveit ásamt söngvurum munu leika og syngja þekktustu lög Bowie. Á auglýsingunni segir að kynnir eða sögumaður sé sjálfur Ólafur Páll Gunnarsson, en þó ekki í eigin persónu.

„Við fengum Óla Palla í Rokklandi í lið með okkur fyrir tónleikana í júní, en hann var nýbúinn að vera með þriggja þátta röð þar sem hann rakti líf og starf Bowie. Hann gerði fyrir okkur kynningar sem við spilum á milli laga, svona í anda þess sem hann gerði sjálfur í þáttunum, þannig að hann verður með okkur þarna án þess að vera með.

Þó svo að Bowie hafi ekki verið svakalega vinsæll síðastliðin ár eru flestir sammála um að hann sé ein af stærstu poppstjörnum heims. Hann var alltaf að breyta um stefnu og sumir gáfust alveg upp á því að reyna að fylgja honum eftir. Hann var algert kamelljón, bæði í tónlist og útliti og segja má að hann hafi verið mikill trendsetter bæði í tónlist og tísku.“


Bowie aðdáendur allsstaðar

Guðmundur segir hópinn renna algerlega blint í sjóninn varðandi tónleikana á Græna Hattinum.

„Það er gaman að spila á Græna hattinum því þó að staðurinn taki allt upp í 200 manns er líka allt í lagi þó svo það séu bara 50 gestir, það er lágt til lofts og ekki svo vítt til veggja. Það eru Bowie aðdáendur allsstaðar þannig að við höfum enga ástæðu til annars en að vona það besta.“

Nánar má fylgjast með viðburðinum hér

Bowie sýning Brján

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.