Bræðslan 2016: Stuðið keyrt upp í seinni hlutanum - Myndir
Tónlistarhátíðin Bræðslan var haldin í tólfta sinn á Borgarfirði um síðustu helgi. Veðrið var gott á föstudag og laugardag eins og venjan hefur verið þessa helgi. Á sunnudagsmorgun rigndi hins vegar og því fóru gestir fyrr til síns heima heldur en oft áður.
Soffía Björg, söngkona úr Borgarfirði vestra, hóf leikinn stundvíslega klukkan hálf átta. Það er oft erfitt að vera fyrstur á sviðið á Bræðslunni en það hefur jafnan fallið í hlut yngri listamanna sem síðar hafa notið frægðar eins og Bróðir Svartúlfs (sem þróaðist í Úlf, úlf) og Of Monsters And Men.
Fáir þekkja Soffíu enn þótt lag hennar Back & Back Again hafi notið nokkurrar hylli. Þrátt að vera orkumikil á sviðinu náði hún vart áhorfendum með sér fyrr en í smellinum sem var hennar næst síðasta lag. Lokalagið var I Lie sem gæti átt eftir að fá nokkra spilun.
Kanadamaðurinn David Celia kom annar en hann hefur meðal annars verið í samstarfi við Emilíuönu Torríni. David byrjaði vel, var einn á sviðinu með gítarinn, munnhörpuna og hristu á hægri fæti. Hann var líka fyndinn með píanóið með andaflautuna. Hann missti hins vegar salinn með löngu lagi í kjölfarið þar sem hann söng ekkert og náði honum ekki aftur.
Hin danska Tina Dickow og Helgi Hrafn fluttu lágstemmda tónlist þar sem flest lögin voru eftir hana. Lögin voru fín og textarnir innihéldu eins línur sem gátu sest á heilabörkinn. Hún sagði að söngvaskáld hefðu síðustu ár horfið frá því að reyna að breyta heiminum með tónlist sinni þannig að ádeilur eða brýningar væru hverfandi. „Don‘t Go To Sleep“ var samt hennar framlag í þann flokk og kveikti vel í salnum.
Írinn Gavin James var kynntur á svið sem týndur hálfbróðir Borgfirðinga, stórvaxinn rauðbirkinn einstaklingur með eldrautt hár og skegg sem dansaði svo framundir morgunn í Fjarðaborg. Hann hefur notið nokkurra vinsælda í heimalandinu að undanförnu.
Hér heima þekktu fáir lögin hans og var því erfitt að taka undir með honum. Flest voru í rólegri kantinum en hann kynnti undir á milli með kímnigáfunni og uppátækjum, til dæmis því að láta salinn herma eftir Louis Armstrong í „It‘s a Wonderful World.“
Þegar hér var komið við sögu var marga tónleikagesti farið að þyrsta í þekktari íslensk lög og meira stuð. Það hlutverk féll KK-bandinu í stuð. Þrátt fyrir að hafa spilað í tvo tíma kvöldið á undan á Seyðisfirði voru KK, Kormákur og Þorleifur fyrrverandi hótelhaldari á Austfjörðum tilbúnir í djöfulgang og fjör. Salurinn þakkaði fyrir með áköllum um aukalög.
Partýið hélt áfram með Amaba dama. Reggísveitin syngur um frið, ást og verndun umhverfisins og söngvararnir þrír djöflast dansandi um sviðið á meðan. Lögin þeirra eru almennt ekki það þekkt að allir kunni þau en sveitin kann að halda hrista bossa með að kalla „hossa, hossa.“
Síðust á svið var Ný dönsk sem tók úrval slagara og söngvararnir Björn Jörundur og Daníel Ágúst náðu salnum vel með sér. Senuþjófurinn var hins vegar Borgfirðingurinn Þröstur Árnason, einn heitasti aðdáandi sveitarinnar, sem var óvænt kallaður upp á svið og spilaði með skælbrosandi í „Hjálpaðu mér upp“.
Sveitin endaði á „Horfðu til himins“ og uppskar að vonum ákall um meira. Tvö lög fylgdu í kjölfarið, hið fyrra var „Frelsið“ sem byrja þurfti á aftur eftir að Björn Jörundur gleymdi hvað gerist í textanum eftir að hann gengur nakinn um húsakynnin í fyrstu línu.
Það angraði engan enda Bræðslugestir aldir upp við að fagna mistökunum af Jónasi Sigurðssyni. Baksviðs hékk blað með lista hljómsveitanna og tímasetningum þar sem á stóð „00:30 búið.“ Ný dönsk fór af sviði klukkustund síðar og tónleikagestir týndust yfir í næsta partý.
Bræðslan 2016 stóð fyrir sínu. Tónleikarnir eru ekki þeir eftirminnilegustu og vera má að heldur mörg óþekkt númer hafi verið í upphafi til að koma stuði í salinn. En á Borgarfirði skapast minningarnar út frá fleiru heldur eingöngu hljómsveitunum á sviðinu.