Breiðdælingar hvattir til að taka til: Númerslausir bílar stinga í augun
Íbúar á Breiðdalsvík eru hvattir til að taka til hendinni og snyrta í kringum sig fyrir komandi sumar. Hreppsskrifstofan flytur á nýjan stað eftir helgi. Ráða þarf nýjan skólastjóra í grunnskólann frá og með næsta skólaári.
„Það sem stingur sérstaklega í augun núna er allur sá fjöldi númerslausa bíla sem er í þorpinu, með tilheyrandi drasli,“ segir í nýjasta fréttabréfi Breiðdalshrepps þar sem íbúar eru hvattir til vorhreingerninga. Sumarið sé framundan með vonandi enn fleiri ferðamönnum en ferðamálasamtök Breiðdalshrepps voru stofnuð fyrir skemmstu.
Hreppsskrifstofan opnar á nýjum stað í grunnskóla staðarins eftir helgi. Ásvegur 32, þar sem skrifstofan hefur verið í rúm 20 ár, var seld í vetur og taka nýir eigendur við húsin á morgun. Undanfarið hefur verið unnið að því að breyta gömlu myndmenntastofunni í grunnskólanum í hreppsskrifstofu.
Þá verða frekari breytingar á grunnskólanum þar sem Ómar Bjarnþórsson, skólastjóri, lætur af störfum í vor vegna aldurs. Hreppsnefndin hefur samþykkt að auglýsa stöðu hans.