Broddurinn rýkur út sem náttúrulegt fæðubótaefni

Steinunn Gunnarsdóttir stendur vaktina í Hirðfíflunum á Vopnafirði alla föstudaga eftir hádegi, en auk þess að vera nytjamarkaður má segja að Hirðfíflin séu nokkurskonar félagsmiðstöð bæjarbúa.


Átta ár eru síðan Steinunn og vinkonur hennar stofnuðu Hirðfíflin. „Okkur leiddist eitthvað og einn daginn ræddum við um það í íþróttahúsinu hvað væri hægt að gera skemmtilegt hér á Vopnafirði og þetta varð úr. Upphaflega vorum við fjórar en núna er ég ein eftir ásamt vinkonu minni sem tekur fyrir mig myndir og sér um að auglýsingahliðina,“ segir Steinunn.

Steinunn segir nafnið gefa auga leið. „Já, við erum fíflin sem hirðum það sem aðrir henda,“ segir hún og hlær. En hvernig áskotnaðist þeim lager í upphafi? „Fólkið hérna á staðnum fór einfaldlega í geymslurnar sínar lét okkur hafa allt það sem það vildi losna við og við fáum alltaf reglulega dót, mest héðan frá Vopnafirði en einnig annarsstaðar frá. Það er alls ekki allt gamalt sem kemur inn á borð til okkar, en það er nú einu sinni þannig að þegar fólk hættir að nota hlutina og setur þá í kassa þá kemur það sjaldnast þaðan aftur. Þegar ég fer í Egilsstaði lít ég gjarnan við í Rauða krossinum og kaupi eitthvað sem ég svo sel áfram hér.“

Mikil vakning í endurnýtingu
Steinunn segist finna fyrir mikilli vakningu á endurnýtingu í samfélaginu. „Já og ekki síður unga fólkið sem er mjög duglegt að kaupa hjá okkur. Mér finnst alveg dásamlegt að hlutirnir eignist framhaldslíf, að fólk kaupi það sem aðrir eru hættir að nota.“

Hlakkar alltaf til föstudaganna
Steinunn segir að Hirðfíflin hafi gefið sér mikið. „Þetta hefur verið ofsalega skemmtilegur tími og gengið vel. Salan er nú ekki mikil yfir vetrarmánuðina en glæðist á sumrin, en þess utan er þetta eins og hálfgerð félagsmiðstöð, fólk kemur hingað á hverjum föstudegi og fær sér kaffi og spjallar saman. Þetta verkefni hefur gefið mér mikla gleði og ég hlakka alltaf til föstudaganna en ég kem þó oftar yfir vikuna, til þess að taka til og dunda mér eitthvað.“

Ágóðinn rennur til Sundabúðar
Allur ágóðinn rennur beint til dvalarheimilisins Sundabúðar á Vopnafirði, en það er dágóður slatti. „Upphaflega gáfum við í Einstök börn en höfum síðustu ár valið að leggja ágóðann beint í heimabyggð þar sem mest af dótinu kemur héðan. Í fyrra voru það 1200 þúsund sem ég gáfum frá okkur en það virðist vera aðeins minna í ár.“

Steinunn lumar á geisivinsælli vöru í frystiskáp Hirðfíflanna. „Já, ég á svolítið hér í skápnum sem margir vilja fá. Það er broddur, beint úr sveitinni. Hann er svo vinsæll að við fáum sendingu í hverri viku sem stoppar ekkert við. Vaxtaræktarfólkið er vitlaust í broddinn, geymir hann í ísskápnum og sýpur af stút. Broddur er ekkert nema prótein og því má segja að það sé löglegt bætiefni.“

Broddur web

Hirðfíflin2 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.