Brugga jólabjór með grenibragði: Vildum gera eitthvað sem ekki væri á markaðinum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. des 2017 11:18 • Uppfært 20. des 2017 11:19
Brugghús Austra í Fellabæ hefur sent frá sér sinn fyrsta jólabjór. Hann sker sig nokkuð úr á markaðinum því hann er með grenibragði. Bragðefnið kemur úr Hallormsstaðarskóg.
„Þetta er nokkuð djörf innkoma í jólabjórgluggann en við vildum gera eitthvað jólalegt sem ekki væri þegar á markaðinum,“ segir Friðrik Bjartur Magnússon, bruggmeistari hjá Austra.
Hann segist hafa farið út í Hallormsstaðarskóg með Þór Þorfinnssyni skógarverði þar sem þeir hafi smakkað til grenitegundir. Niðurstaðan var sú að sitkagreni bragðaðist best og fór Friðrik Bjartur því heim með bunka af trjágreinum.
Nálarnar eru síðan teknar af greinunum og þær soðnar líkt og venjulegir humlar.
Eins og oft vill verða um djarfar hugmyndir hafa viðtökurnar verið góðar. Friðrik er samt ánægður með þær. „Ef allir hefðu sama smekk þá væri bara ein tegund. Salan hefur heilt yfir góð,“ segir hann. Bjórnum er dreift í níu verslanir ÁTVR og flest veitingahús á Austurlandi.
Jólabruggunin er búin hjá bruggmeistaranum en það koma fleiri hátíðir eftir jólin. „Ég var að leggja í þorrabjór í gær og þar verður eitthvað spennandi. Svo er ég að vinna í prufum fyrir páskana.“