„Búið að mæra mig svo mikið að ég roðna bara“

Fyrsta Blúshátíð Stöðvarfjarðar var haldin um helgina auk sýningarinnar Petru sem fjallar um hina stöðfirsku Steina-Petru.



„Þetta tókst alveg rosalega vel og fór langt fram úr mínum björtustu vonum, ég er enn með þetta í hausnum og svolítið eins og undin tuska,“ segir Garðar Harðar, tónlistarmaður og skipuleggjandi fyrstu Blúshátíðar Stöðvarfjarðar sem fram fór um helgina.

„Ég var búinn að ætla mér að gera þetta í mörg ár, en hef aldrei lagt í það einhvernvegin. Allt snýst þetta um að leita styrkja hér og þar. Í vetur ákvað ég bara að láta slag standa og láta drauminn verða að veruleika í sumar.“

Fjölmargir austfirskir listamenn stigu á stokk, svo sem Kór Reyðafjarðarkirkju, Fjarðadætur, MurMur, The Borrowed Brass Blues Band, Blúsband Bjössa Sigfinns og Máni & the Roadkillers stíga á stokk, sem og hljómsveit Garðars, Blúsbrot Garðars Harðar.

„Ég bara fór af stað og hafði samband við fólk og spurði hvort það vildi koma og spila en það yrði að vera frítt þar sem engir peningar væru til. Skemmst er frá því að segja að tónlistarfólk tók svo vel í það að hugmyndin vatt upp á sig og áður en ég vissi var búið að fylla dagskrá fyrir tvö kvöld. Aðsóknin í að spila var það mikið að ég þurfti meira að segja að hafna nokkrum sem vildu koma að sunnan til að spila. Þegar ég sá hve áhuginn var mikill hér fyrir austan ákvað ég strax að þetta árið myndi fókusinn algerlega vera á heimafólki og tók ég það því framyfir aðra,“ segir Garðar.

 

 


Mætingin fór fram úr vonum

Um 300 manns komu á hátíðina, en auk tónleika í Frystiklefa Sköpunarmiðstöðvarfinnar á föstudags- og laugardagskvöld var „Jam session“ undir berum himni á laugardaginn þar öllum var frjálst að koma og spila auk þess sem stórt útigrill var á staðnum.

„Það var troðfullt hús bæði kvöldin og einhverjir þurftu frá að hverfa vegna plássleysis fyrra kvöldið. Stemmningin var alveg frábær og fólk var þarna komið til þess að skemmta sér virkilega.

Við stóðum svo fyrir þessu „jam sessioni“ á laugardaginn og þangað mættu fjölmargir, grilluðu og tóku lagið. Ég hélt að það myndi endast í mesta lagi hálftíma, en ég þurfti að fara eftir tvo tíma og þá var enn allt í fullu fjöri og í dágóðan tíma eftir það.

Ég hef ekkert heyrt eftir helgina nema ánægjuna eina og það er búið að mæra mig svo mikið að ég roðna bara,“ segir Garðar og bætir því við að tónleikunum á laugardagskvöldið hafi verið slitið með þeim orðum að nú þurfi að fara að huga að hátíðinni að ári.

 


Tilfinningaþrungin sýning á Stöðvarfirði

Fimm daga sýningarferð um Austurland á leikverkinu Petra, eftir þau Brogan Davison, Pétur Ármannsson og Björn Leó Brynjarsson, lauk á Stöðvarfirði í gærkvöldi. Viðfangsefnið er Steina-Petra, en Pétur er einmitt langömmubarn hennar.

„Lokasýningin á Stöðvarfirði var fullkominn endir á sýningarferðalaginu. Við hituðum upp með súpu úr Steinasafninu og náðum okkur svo niður eftir tilfinningaþrungna sýningu með lummum í eldhúsinu hjá ömmu og afa.

Í heildina tókst ferðalagið mjög vel og langar mig að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkur við að gera það að veruleika, Austurbrú, Fjarðabyggð og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, sem og öllum þeim sem komu að sjá okkur,“ segir Pétur.

 Petra leikhópur 1200

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.