Dagskrá Bræðslunnar tilkynnt: Óskarsverðlaunahafi mætir í sumar
Írski óskarsverðlaunahafinn Glen Hansard verður meðal gesta á tónlistarhátíðinni Bræðslunni í sumar. Kunnugleg andlit í formi Jónasar Sigurðssonar og Hjálma koma einnig í heimsókn. Hátíðin verður í sumar haldin í sjöunda sinn helgina 22. – 24. júlí.
Hansard er ríflega fertugur Íri sem hlaut Óskarsverðlaunin árið 2008 fyrir lag sitt „Falling down“ sem var í írsku kvikmyndinni „Once“ sem einnig var tilnefnd sem besta erlenda myndin. Hann hefur farið fyrir hljómsveitinni The Frames og The Swell Season. Hansard verður í sumar á tónleikaferðalagi með Eddie Wedder, söngvara bandarísku sveitarinnar Pearl Jam.
Aðrir gestir Bræðslunnar í ár eru sennilega kunnari íslenskum tónlistaráhugamönnum. Reggeasveitin Hjálmar kemur í heimsókn, austfirska blúsrokksveitinn Vax, trúbadorinn Svavar Knútur og Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar, sem segja má að séu orðnir fastagestir á Bræðslunni.
Forsala á Bræðsluna hefst fimmtudaginn 19. maí á midi.is og afgreiðslustöðum mida.is og er vert að taka fram að síðustu ár hefur selst upp á Bræðsluna í forsölu enda aðeins 800 aðgöngumiðar í boði í forsölu.