Dans og tónverk frumflutt á Skriðuklaustri
Dans- og tónverk sem listamennirnir Megan Harrold og Charlie Rauh hafa unnið að síðustu vikur í gestaíðbúðinni á Skriðuklaustri verður frumflutt í Snæfellsstofu á morgun.
Dansarinn Megan Harrold og tónskáldið og gítaristinn Charlie Rauh hafa samið dansog tónverk fyrir dansara og gítar sem byggir á sýnum nunnunnar Hildegard von Bingen (1098-1179). Hildigerður þessi var uppi á 12. öld og skrifaði um undarlegar sýnir sem segir frá í ritverkinu Scivias. Verk þeirra Charlie og Megan er samið út frá hinum skrifaða texta og orð og lýsingar yfirfærðar í dans og tóna. Einnig er það undir áhrifum frá tungumáli sem Hildigerður bjó sjálf til með eigin stafrófi.
Dans-og tónverkið er með stíganda og líkist lyftuferð þar sem samspil tónlistarmanns og dansara færir verkið frá einni hæð á aðra. Flutningur þess er því á vissan hátt spuni sem þó fylgir ákveðnum kjarna sem byggir á samhljómi listamannanna.
Flutningurinn byrjar kl. 15:00. Aðgangur er ókeypis. Nánari upplýsingar um Rauh og Harrold eru á culturalreflex.webs.com