Skip to main content

Dansverk í Frystiklefanum í kvöld

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. mar 2016 15:00Uppfært 29. mar 2016 15:00

Milos Sofrenovic sýnir dansverkið THE ANATOMY OF WILL, Dialogue with Wilhelm Furtwangler í Frystiklefanum í Sláturhúsinu í kvöld klukkan 20:00.



Milos Sofrenovic, dansari og danshöfundur, dvelur um þessar mundir í Kaffistofunni, listamannaíbúð Sláturhúsins á vegum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.

Milos er ættaður frá Serbíu, lærði í Englandi en býr í Austurríki og vinnur um allan heim. Milos hafði lengi dreymt um að komast til Íslands.

Milos er danshöfundur og mun vinna að nýju verki á meðan á dvöl hans stendur, en auk þess mun hann sýna eldra verk bæði á Egilsstöðum og á Seyðisfirði. Milos mun halda námskeið fyrir nemendur LungA skólans á Seyðisfirði og unga leikara á Egilsstöðum, auk þess sem hann heldur fyrirlestur fyrir nemendur listnámsbrautar Menntaskólans á Egilsstöðum.

Koma Milos er liður í verkefni Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs sem felst í því að bjóða sviðslistafólki innlendu og erlendu að koma og vinna að verkum sínum hér á Austurlandi. Með það að markmiði að efla faglegt umhverfi sviðslista hér á svæðinu með samvinnu heimamanna og þeirra listamanna sem hingað koma.