Dreymir um að koma félaginu í betra húsnæði

„Félagið stendur og fellur með félagsmönnum, þannig að ef þú hefur brennandi áhuga á kraft- og ólympískum lyftingum sem og hugmyndafræði Crossfit þá er þetta félagið fyrir þig, þar sem allir vinna saman að uppbyggingu,“ segir Sigrún Harpa Bjarnadóttir, lögfræðingur og stofnandi Kraftlyftingafélagsins.



Sigrún Harpa stofnaði félagið síðasta sumar, sem enn er smátt í sniðum.

„Það eru ennþá fáir sem æfa reglulega, búnaðurinn er enn takmarkaður við einn til tvo þar sem ég hef þurft að greiða fyrir hann úr eigin vasa, auk þess sem ég lánaða stöng og lóð frá Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Félagið er algjörlega ófjárhagslegt og enginn starfsmaður verður innan þess.“

Kraftlyftingafélagið er sem stendur í gamla frystihúsinu á Eskifirði. Sigrún vonast eftir því að það komist á betri stað sem fyrst.

„Þetta er ekki alveg drauma húsnæði þar sem það lekur og þar er kalt, en vegna húsnæðisskorts á svæðinu og hárrar leigu þá verður þetta að duga þar til betra húsnæði finnst sem einnig er á viðráðanlegu verði fyrir félag sem þetta. Það þarf að vera með góðri lofthæð og góðu gólfi þar sem lóðin geta öllu jafna verið mjög þung þegar á stöngina er komið. Hugsanlega getur félagið verið undirfélag frá öðru félagi hér í Fjarðabyggð svo sem Val eða Austra.“

Sigrún Harpa segist sjá Kraftlyftingafélagið sem stað þar sem félagsmenn geti komið og æft það sem þeir kjósa, til dæmis blöndu af lyftingum og þolhreyfingu. Til staðar á að verða búnaður til fjölbreyttrar æfingar.


Kolféll fyrir lyftingunum

Sjálf kynntist Sigrún Harpa ólympískum lyftingum þegar hún fór að æfa Crossfit á Akureyri árið 2011.

„Ég kollféll fyrir þeim, sem og kraftlyftingum, sem er ekki það sama. Ég er Crossfit-þjálfari og er með tíma einu sinni í viku hjá Crossfit Austur á Egilsstöðum, en þar er eina aðstaðan á Austurlandi til að stunda Ólympískar lyftingar af einhverju ráðu. Íþrótt sem þessi á ekki heima í venjulegri líkamsræktarstöð þar sem hættur geta leynst víða vegna plássleysis auk þess sem sérstakan lóðabúnað þarf til.“


Vill vekja athygli á íþróttinni

Sigrún Harpa segir að fyrst og fremst hafi hún viljað stuðla að aukinni fjölbreyttni í íþróttum á svæðinu. „Ég hugsa aðstöðuna fyrst og fremst fyrir ólympískar lyftingar og kraftlyftingar. Ólympískar lyftingar hafa verið á uppleið sem íþróttagrein hjá ungufólki hérlendis í kjölfar Crossfit fársins sem hefur gengið yfir landið undanfarin ár. Ísland á í dag stóran hóp efnilegra keppenda í ólympískum lyftingum en samt sem áður erum við enn aftarlega í greininni miðað við önnur lönd, sem þó allt er á uppleið sem betur fer. Rannsóknir hafa sýnt fram á að æfingar í ólympískum lyftingum eða Crossfit samhliða öðrum séríþróttum eykur úthald, snerpu og styrk íþróttamanna hverri grein.

Aðal markmið með því að stofna félagið og koma upp aðstöðu er að vekja athygli á þessari frábæru íþrótt og áhuga hjá yngra fólki á hreyfingu sem þessari – þar sem ekki er mikið um hlaup sem kannski eru ekki fyrir alla.“

Facebooksíðu Kraftlyftingafélagsins má sjá hér

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.