Dýrasti bjór Íslandssögunnar bruggaður úr austfirskum aðalbláberjum

Borg brugghús hefur sett á markað bjór sem nefnist Fjólubláa höndin. Bjórinn ber heldur óvenjulegan bláan lit þar sem hann er bruggaður úr aðalbláberjum sem að mestu voru tínd á Austurlandi.


„Það var ekki hlaupið að því að fá bláberin því við þurfum um hálft tonn. Við fengum fyrirtækið Íslensk Hollusta til liðs við okkur og berin eru að mestu tínd á Austfjörðum og eitthvað einnig á Norðurlandi,“ segir Fellbæingurinn Óli Rúnar Jónsson, titlaður borgarstjóri hjá brugghússinu.

Hann segir að fjárfest hafi verið í berjum fyrir um tvær milljónir króna síðasta haust því von var á heimsókn frá bandarísku brugghúsi, Arizona Wilderness Brewing Company.

Bandaríkjamennirnir dvöldu á Íslandi í um vikutíma og segir Óli Rúnar að tíminn hafi verið nýttur í að „handleika íslensk aðalbláber og undirbúa þau fyrir bjórinn.“ Það hafi kostað: „útatað brugghús, poka af ónýtum fötum og fjólubláar hendur,“ þaðan sem nafnið er fengið.

Afraksturinn hafi verið 2.800 lítrar af bjór. „Um var að ræða umtalsverða tilraunastarfssemi og mikið undir, bæði í rándýrum hráefnum og gríðarlegum vinnslutíma. Það var því umtalsverður léttir þegar við smökkuðum bjórinn og hann var eins og stefnt var að gæðalega.“

Bjórinn er aðeins framleiddur í þetta eina skipti en hann er með stimpil fimm ár fram í tímann. Hann er hægt að kaupa á helstu bjórbörum landsins og nokkrum útsölustöðum ÁTVR. Þá er hægt að sérpanta í áfengisverslanir. Samkvæmt birgðatalningu sem lá fyrir við vinnslu fréttarinnar var til ein flaska á Austurlandi í búðinni á Fáskrúðsfirði.

Óli Rúnar lengst til hægri ásamt bruggurum Borgar. Mynd: Ölgerðiin

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.