![](/images/stories/news/folk/kristin_amalia_atladottir_jan17_0004_web.jpg)
Efna til keppni í draugasögum
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Bókasafn Héraðsbúa efna til keppni í draugasögum. Forstöðumaður miðstöðvarinnar segir keppnina hluta af stærra verkefni um að varðveita sagnaarfinn.
„Þetta tengist einu af þremur stórum langtímaverkefnum sem við erum með hjá Menningarmiðstöðinni. Eitt af þeim er að reyna að tengja saman brot í sagnamennsku sem finnast út um allt land og gera Austurland að miðstöð þessa gamla listforms.
Það hefur verið að fjara út en lifir enn í brotum. Við viljum byggja það upp, þjálfa börn og fullorðna í því og halda hátíðir,“ segir Kristín Amalía Atladóttir sem um jólin tók við sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar.
Keppnin felst í flutningi draugasögu. Áhugasamir mega velja sér sögu að eigin vali og má hún hvort sem er vera gömul eða jafnvel frumsamin. Þeir hafa síðan tíu mínútur til að flytja söguna.
Keppnin verður ekki fyrr en seinni hluta apríl svo nægur tími er til æfinga. Ýmist er hægt að senda inn flutning eða segja söguna fyrir framan áhorfendur.
„Áhorfendur gefa síðan einkunn og að lokum verður veitt viðurkenning, Héraðsdraugurinn, til þess sem hlýtur bestu einkunnina,“ segir Kristín sem vonast til að viðburðurinn verði árlegur.
Hún segir keppnina tilraun til að kanna áhugann fyrir sagnaverkefninu. „Ég veit ekkert hver viðbrögðin eru en ég veit um nokkra áhugasama einstaklinga. Ég er að vonast til að komast í samband við fólk sem deilir þessum áhuga og væri til í að vinna með mér að þessu uppbyggingarverkefni.“
Allt snýst um sjónræna skynjun
Kristín segir sagnahefðina hafa átt undir högg að sækja í nokkurn tíma. „Börnin okkar alast nær eingöngu upp við sjónræna skynjun. Fólk í dag hefur takmarkaða þolinmæði til að hlusta á talað orð nema það sé eitthvað sjónrænt í gangi um leið.
Við viljum opna skilning fólks á fleiri skynfæri sem krefjast annars konar einbeitingar um leið og við viðhöldum hefðum.
Ég held að áhugi á sagnamennsku sé að aukast allt í kringum okkur. Fólk leitar til dæmis í hlaðvörpin og ég held að það séu varnarviðbrögð við ofhleðslu skynjunar í öllum hinum miðlunum. Það felst ró í því að einbeita sér að einni skynjun í einu.“
En er Katrín búin að velja sér uppáhaldsdraugasögu af Austurlandi? „Ég bý ein yst úti í Hjaltastaðaþinghá og er ekki að lesa draugasögur. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við neina drauga þar út frá þrátt fyrir að hafa búið þar í bráðum eitt og hálft ár.“