Skip to main content

„Ég bara missti á mér hausinn“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. nóv 2016 13:31Uppfært 03. nóv 2016 13:31

„Ég fékk svo mikla heimþrá að það var alveg hræðilegt, ég ætlaði bara að hætta og fara heim,“ segir borgfirski söngvarinn Magni Ásgeirsson, en tíu ár eru liðin frá því hann tók þátt í bandaríska raunveruleikaþættinum Rockstar Supernova. Magni er í opnuviðtali Austurgluggans sem kemur út á morgun.



Að loknum áheyrnarprufum var Magni eini Íslendingurinn sem komst alla leið í þáttinn sem gekk út á það að meðlimir hljómsveitarinnar Supernova, með trommuleikarann Tommy Lee í broddi fylkingar, voru að leita sér að söngvara. Þátturinn var sýndur á Skjá einum og íslenska þjóðin hélt niðri í sér andanum af spenningi í heila fjóra mánuði en okkar maður var inni allan tímann og endaði í fjórða sæti.


Mæðginunum flogið út

Marinó, elsti sonur Magna var aðeins ársgamall þegar hann fór út. Heimþráin var dempuð með því að hann fékk að hringja heim þegar ég vildi enda sá eini sem var svo langt í burtu og með lítið barn að auki. „Svo kunnu þeir alveg að notfæra sér ástandið og búa til gott sjónvarp og flugu þeim mæðginum út til mín á miðju tímabilinu,“ sagði Magni.

Þátturinn fékk mikið áhorf um allan heim. „Við áttuðum okkur ekki á því enda í einhverri lokaðri kúlu og fengum ekkert að vita. Í eitt skiptið lenti ég í einu af þriðju neðstu sætunum og átti á hættu að vera sendur heim og þá kikkaði íslenska þjóðarsálin heldur betur inn og kaus yfir sig og í næstu viku var ég efstur, nokkuð sambærilegt íslenska landsliðinu á styrkleikalista FIFA.“



„Ég kom heim sem Magni „okkar“ Ásgeirsson

Magni segir það hafa verið erfitt að koma heim í blákaldan raunveruleikann.

„Ég kom heim sem Magni „okkar“ Ásgeirsson. Stóð fyrir tveimur risatónleikum í Laugardalshöllinni þar sem nokkrir af keppendum þáttanna og „húsbandið“ komu og spiluðu.

En, eftir að þessi kúla sprakk varð ég alveg snarruglaður, þetta var svona eins og að fara út í geim, svo langt var upplifunin frá raunveruleikanum. Ég var farinn að finna fyrir þessu síðustu vikurnar úti og labbaði svo algerlega á vegg þegar þessu lauk, var líklega orðinn alveg bullandi þunglyndur. Ég var alveg hálft ár að ná að fúnkera aftur, bara að fara í vinnuna og lifa eðlilegu lífi. Þetta fór illa með sambandið, ég var ekki til staðar og ég bara missti á mér hausinn en sem betur fer náði ég honum aftur til baka.“

Magni og Eyrún slitu samvistum í stuttan tíma eftir að hann kom heim og flutti hún til Akureyrar með Marinó og fór að kenna íslensku við Menntaskólann á Akureyri.

„Við skildum um stund af því ég var fáviti. Ég elti hana og sem betur fer tók hún við mér aftur enda er Eyrún yndislegasta manneskja sem ég þekki og ég hlakka til að eyða ævinni með henni.“

Þetta og svo mikið meira í Austurglugga vikunnar.