„Ég var harður trúleysingi fyrir“

„Ég lít ekki á það sem hindrun að vera múslimi, ég geri allt sem ég vil gera,“ segir Agnes Ósk Þorgrímsdóttir, 32 ára Fáskrúðsfirðingur sem tók íslamstrú áður en hún fór í hjálparstarf til Palestínu árið 2011. Agnes Ósk er í opnuviðtali Austurgluggans sem kemur út í dag.


Sumarið 2011 fór Agnes sem sjálfboðaliði til Palestínu. „Auðvitað á það sér langa forsögu að ég færi þarna út og hvað þá að ég gerðist múslimi. Áramótin 2008/2009 sá ég myndband á Youtube um átök Palestínumanna og Ísraelsmanna. Á þessum tíma vissi ég ekki einu sinni hvar Palestína var. Ég fór að fylgjast með þessu og ástandið stakk mig í hjartað þannig að ég sökkti mér ofan í upplýsingar, fór að lesa um svæðið og af hverju ástandið væri eins og það var. Í kjölfarið kom þessi ákvörðun að fara til Palestínu sem sjálfboðaliði. Úr því ég ætlaði að gera það ákvað ég að læra allt um íslam til þess að vita eitthvað í minn haus. Ég las bækur, eitthvað af Kóraninum, talaði við múslima um allan heim. Mánuði áður en ég fór út gerðist ég múslimi með því að fara með Shahada, sem er trúarjátning múslima.“

Agnes segir það ómögulegt að útskýra þessa ákvörðun sína fyrir þeim sem ekki þekki til. „Ég get ekki bent á eitthvað eitt sem réði því að ég fór þessa leið, þetta var bara eitthvað sem byggðist upp innra með mér og ég bara fann að það var þetta sem ég vildi. Ég var harður trúleysingi en svo kom þetta bara yfir mig, en það var það síðasta sem ég bjóst við. Þetta er svona svolítið eins og að reyna að útskýra tilfinningar fyrir einhverjum sem aldrei hafa upplifað þær. Um leið og þú finnur það í hjartanu þá ertu orðinn múslimi.“


„Það er bara öllum skítsama“

Í dag býr Agnes Ósk með manni sínum Moaz á Fáskrúðsfirði, en hann er einnig múslimi. Hún segist aðeins mæta góðu viðhorfi í samfélaginu. „Já, það er bara öllum skítsama, það er enginn að spá í þetta. Auðvitað gilda ákveðnar reglur, eins og við borðum ekki svínakjöt, höldum ekki jól, drekkum ekki eða neytum eiturlyfja. Við biðjum fimm sinnum á dag og föstum á ramadan einu sinni á ári, en í flestu erum við bara eins og hverjir aðrir.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Austurglugganum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.