„Ég var alltaf að reyna að vera eitthvað annað en ég var"

„Ég fór að leita í mat til að deyfa mig, það var tólið sem ég notaði,“ segir Norðfirðingurinn Arna Vilhjálmsdóttir, sem kom, sá og sigraði Biggest Loser keppnina á Íslandi í vetur. Í dag er Arna á góðum stað, en hún var í einlægu viðtali í Austurglugga síðustu viku.


Arna flutti í Neskaupstað með fjölskyldu sinni þegar hún var sjö ára gömul. Hún segist lengi hafa átt í óheilbrigðu sambandi við mat.

„Mér gekk alltaf vel í öllum íþróttum í grunnskóla, þrátt fyrir að vera kannski eitthvað stærri en aðrir. En, mér fannst ég öðruvísi en hinar stelpurnar, strákarnir voru skotnar í þeim og þær áttu kærasta. Ég var gaur og var bara ein af strákunum. Ég upplifði mig annars flokks, ekki nógu sæta eða mjóa og reyndi því alltaf að vera extra fyndin, eða extra góð í vörn í fótbolta til að halda mínu sæti innan hópsins, þó svo ég hefði aldrei þurft að verja það. Ég var því alltaf að reyna að vera eitthvað annað en ég var og þess vegna átti ég svo erfitt með að vera ein með sjálfri mér því ég var ekki sú sem ég vildi vera. Ég gat aldrei verið ein án þess að vera að borða og horfa á eitthvað, ég var hrædd við að vera ein með hugsunum mínum.“

Leið verst á háskólaárunum
Arna segir að vanlíðanin og erfiðleikarnir hafi byrjað fyrir alvöru í efstu bekkjum grunnskóla. „Þá skrifaði ég fyrsta alvöru bréfið, svona ef ég myndi fremja sjálfsmorð. Í menntaskóla grasseraði þetta svo enn frekar og ég skipti um fókus af íþróttunum yfir á djammið og varð önnur en ég var vön að vera. Erfiðustu árin mín voru þó meðan ég var í háskólanum, annað árið mitt var mjög þungt. Ég var í öllum nefndum og ráðum, djammaði mikið en sjálfstraustið var í molum. Námið var heldur ekki eins og ég bjóst við en ég ákvað samt að klára það. Ég var orðin þetta gömul, hafði aldrei átt kærasta og það lagðist á sálina á mér. Mér fannst ég bara ógeð og þess vegna kom ég ógeðslega fram við sjálfa mig. Mig langaði bara að deyja og eitt kvöldið skrifaði ég fjögur bréf. Ég sagði foreldrum mínum frá þessu árið 2015 en ég er bara þannig gerð að ég vil ekki að fólk sé að hafa áhyggjur af mér eða velta sér upp úr minni líðan. Ég flutti á Patreksfjörð til bróður míns eftir áramót 2016 vegna þess að ég var svo hrædd við að búa ein ef ég myndi láta verða af þessu.“

 

Vill hjála fólki í þeirri stöðu sem hún var
Í dag er allt annað hljóð í Örnu sem er 60 kíló léttari andlega og líkamlega. Hún starfar sem kennari í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu en hefur einnig verið að fást við þjálfun. „Ég er ótrúlega bjartsýn á framtíðina. Ég fann að þjálfunin liggur vel fyrir mér og fólk tekur mark á mér því það veit nákvæmlega hvar ég var stödd fyrir nokkrum má

nuðum síðan. Ég brenn fyrir að hjálpa fólki sem er í sömu sporum og ég var, ég vil ekki að nokkrum þurfi að líða eins og mér leið. Það er gott að vita og heldur mér gangandi að vita til þess að þetta eigi vel við mig og ég geti komið inn og verið með hóptíma eða námskeið aftur.“

Viðtalið í heild sinni er að finna í 4. tölublaði Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.